151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[13:42]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Viðreisn styðjum þá framlengingu sem hér er lögð til. Hún er nauðsynlegt úrræði til að mæta vanda þessa hóps sem hann stendur frammi fyrir vegna Covid. En að sama skapi styðjum við breytingartillögu minni hlutans. Ég sem áheyrnarfulltrúi velferðarnefndar er samþykk henni vegna þess að ekki eingöngu hljóta allir að sjá og viðurkenna það óréttlæti sem felst í stöðu námsmanna þegar kemur að þessum hlutum, námsmanna sem framfleyta sér oft með hlutanámi, greiða sinn hlut í Atvinnuleysistryggingasjóð en eru síðan látnir sitja hjá skertir. Þetta er mjög gott tækifæri af því að þetta er tímabundið úrræði til að láta á það reyna hvort himinn og jörð og íslenskt hagkerfi fari nokkuð á hvolf þótt þessa réttlætis sé gætt. Þetta er tímabundið úrræði sem gefur kærkomið tækifæri til að láta reyna á hvort við meinum það ekki þegar við segjum að við viljum að unga fólkið okkar leiti sér menntunar og við gerum þeim kleift að leita sér menntunar. Þetta eru litlir fjármunir og lítið skref sem skiptir þennan hóp miklu máli, og mögulega eitthvert þeirra öllu máli.