151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[20:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þetta mál sem við ræðum hér er auðvitað ekki nýtilkomið. Það er komin reynsla á það alveg frá árinu 1999 og þetta var þá þegar auðvitað mikið framfaraskref. Þó að eitt og annað hafi breyst í millitíðinni hefur þessi lagasetning, sem var innleidd fyrir meira en tveimur áratugum, sannað gildi sitt og gert það mjög vel.

Í þessu frumvarpi og greinargerð með því er talsvert vikið að gagnrýni og athugasemdum Ríkisendurskoðunar við þetta fyrirkomulag. Ég ætla ekki að fara mjög tæknilega út í það en þó er rétt að víkja aðeins að því hér á eftir með hvaða hætti stjórnvöld hafa tekið á þeim ábendingum að því marki sem það birtist í þessu frumvarpi eða ekki, enda felur þetta í sér ríkisaðstoðarkerfi og eins og segir í greinargerðinni kallar það á endurskoðun laganna við og við en þau hafa ekki bara verið endurskoðuð heldur hafa þau þróast og breyst. Ekki hvað síst hefur endurgreiðsluhlutfallið hækkað, úr því að vera 12% í upphafi eftir að lögin voru samþykkt 1999, svo upp í 14%, svo 20% og svo hækkaði það upp í 25% árið 2016. Samkeppnin hefur auðvitað aukist á sama tíma því að fleiri lönd og svæði, héruð innan landa, hafa séð tækifærin sem í þessu liggja. Fyrir vikið er samkeppnin meiri en árangurinn sem Ísland hefur náð á þessu sviði hjálpar okkur engu að síður í þeirri samkeppni. Það forskot sem má segja að við höfum náð með því að reynsla komst á þessa starfsemi tiltölulega mjög fljótlega, fyrir meira en 20 árum, hjálpar okkur að viðhalda þessu þó að matið hafi verið það að aukin samkeppni kallaði á hærra endurgreiðsluhlutfall.

Við skulum hafa í huga að hér er verið að endurgreiða hluta af skatti sem ella hefði hugsanlega ekki komið til nema vegna þess að hér voru til staðar hvatar sem settu Ísland á kortið og eitt leiddi af öðru. Ég tel að það megi þó í rauninni enn ganga á lagið, ef svo má segja, varðandi árangur þessa verkefnis og við Íslendingar ættum að leyfa okkur að hvetja til þess að ákveðin tækifæri í kvikmyndagerð hér á landi verði nýtt af, hvort heldur sem er, innlendum eða erlendum framleiðendum, sérstaklega tækifæri sem tengjast menningu okkar og sögu, því að með slíkri tengingu verða þau áhrif sem þessu frumvarpi og upprunalegu lögunum er ætlað að ná þeim mun meiri. Með öðrum orðum held ég að það mætti alveg fá einhverja þeirra sem eru að vinna í markaðsmálum fyrir okkur Íslendinga og í tengslum við fólkið í þessum bransa til að benda mönnum á stór tækifæri eins og t.d. Íslendingasögurnar, að menn geri hér alvöru flottar heimsklassabíómyndir byggðar á Íslendingasögunum. Ég held að markaður fyrir það hafi aukist til mikilla muna á undanförnum árum. Við þekkjum dæmi um slíkar myndir, t.d. Útlagann og víkingamyndir á borð við Hrafninn flýgur. Jafnvel þó að þær myndir hafi verið framleiddar fyrir umtalsvert minna fjármagn en við sjáum núna nýtt í kvikmyndagerð á Íslandi hafa þær fengið ákveðinn sess sem mér hefur virst vera að styrkjast og enn er þessum myndum og fleiri eldri íslenskum kvikmyndum gefinn gaumur, m.a. af erlendum áhorfendum. Eflaust kannast margir við það að hafa hitt Svía sem, þegar viðkomandi heyrir að maður sé frá Íslandi. segir strax „þungur hnífur“ og þekkir landið ekki hvað síst í gegnum Hrafninn flýgur. Ég tel að núna hafi möguleikar á að nýta víkingaarfleifð okkar Íslendinga og sérstaklega Íslendingasögurnar aukist til mjög mikilla muna með m.a. vinsælum þáttum sem fjalla um þetta tímabil, allt frá sjónvarpsþáttum á borð við Víkingana, sem eru vinsælir nú um stundir, að ofurhetjum eins og Þór. Nú er meira að segja, skilst mér, búið að framleiða kvikmynd um Loka.

Annað þessu tengt. Menn hafa nefnt hér Game of Thrones, ég man ekki alveg hvernig það er þýtt á íslensku, og Hringadróttinssögu og fleira sem hefur undirbúið jarðveginn til þess að við getum í auknum mæli nýtt þessa arfleifð til að kynna sögu okkar, menningu og landið sem áfangastað. Ég myndi hvetja mjög til þess að við hömruðum þetta járn á meðan það er heitt og var jafnvel búinn að sjá fyrir mér hver gæti verið góður leikstjóri í einni af þessum Íslendingasögumyndum, Ang Lee, sem hefur leikstýrt myndum þar sem atburðarásin er á vissan hátt stundum svolítið lík og tæknin sem þyrfti til að gera Íslendingasögunum almennileg skil.

Áður en ég lýk við að fjalla um þessa hugmynd mína um hvernig við getum hamrað þetta járn meira vil ég nefna að ég legg líka til að það verði framleidd kvikmynd um tímaflakk. Tímaflakksmyndir eru alltaf vinsælar ef þær eru vel gerðar og ég sé fyrir mér að einhver færi aftur í tímann hér á Íslandi og lenti þá á landnámsöld eða þjóðveldisöld. Þetta myndi bjóða upp á alls konar skemmtilega möguleika, annars vegar af því að tímaflakkari frá okkar tíma lærði á hið liðna en auðvitað líka að þeir sem hann hitti þar lærðu af framtíðinni. Ég sé fyrir mér að viðkomandi hefði gott af því að kynnast því hversu mikil þekking var til staðar og hvað menn gátu oft bjargað sér við erfiðar aðstæður og gert hluti með þekkingu sem við höfum jafnvel glatað nú í dag.

Ég mun kannski fara betur út í þessa hugmynd síðar af því ég sé að tíminn er að renna frá mér en ég hafði hugsað mér að fara nánar út í hvernig þetta handrit gæti virkað. Það verður að sjá til hvort tími gefst til þess því ég þarf að halda áfram að fara yfir málið. Við sjáum í greinargerð að hæstv. iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur farið til Hollywood í fyrra og fengið þar góðar viðtökur og menn hafi borið lof á skilvirkni þessa kerfis og sérstaklega tekið fram að menn væru ánægðir með einfaldleika og skilvirkni kerfisins sem skiptir ekki síður máli en sjálft endurgreiðsluhlutfallið. Þarna held ég að við getum lært heilmikið af þessu dæmi því að það sama á auðvitað við á fjölmörgum öðrum sviðum þar sem hefur því miður oft og tíðum hallað undan fæti og dregið hefur úr skilvirkninni og einfaldleikanum í kerfinu og svo hafa reyndar skattar og gjöld oft á tíðum hækkað líka. En menn þurfa á því að halda núna á Íslandi, þegar við þurfum fjölbreytta atvinnusköpun á sem flestum sviðum, að læra af dæmum eins og þessu og því sem hefur reynst vel hér og heimfæra það á fleiri svið, einfaldleikann og skilvirknina. Þá geta miklu fleiri atvinnusvið skilað miklu meiri árangri fyrir þjóðarbúið og samfélagið.

Það var líka nefnt í þessari heimsókn til Hollywood að hér væri mjög fært starfsfólk sem reyndist vel, væri fljótt að setja sig inn í mál og ynni afskaplega vel og fagmannlega að þessari framleiðslu. Það er annað dæmi sem getur nýst víðar, að við erum með svo gott og öflugt fólk á svo mörgum sviðum, það þarf bara í mörgum tilvikum að fá meira frelsi til að nýta þekkingu sína, færni og starfskrafta. Fleira mætti tína til hér um það sem hefur reynst vel í þessu verkefni og ég tek undir.

Ég tek sérstaklega undir það, herra forseti, af því að ég hef aðeins fengið að kynnast því, að fólk í þessum framleiðslugeira og tæknimenn á því sviði á Íslandi er alveg afburðagott og fært fólk upp til hópa og oft á tíðum alveg sérstaklega gaman að fá að fylgjast með því vinna og sjá þá töfra sem það nær að búa til. Efnisveiturnar og vaxandi notkun þeirra munu hafa hér talsverð áhrif og auka enn líkurnar á því að ásókn í að framleiða hér kvikmyndir og þætti geti haldið áfram að vaxa. Það er nokkuð sem mér hefur virst hafa leitt til hálfgerðrar keðjuverkunar. Hér koma einhverjir og framleiða þætti og það reynist vel. Þá eykur það um leið líkurnar á að keppinautarnir geri slíkt hið sama. Þessari keðjuverkun þurfum við að viðhalda og þetta mál er ágætlega til þess fallið þó að það séu enn, eins og ég nefndi í byrjun, ýmis álitaefni varðandi það hvernig athugasemdum Ríkisendurskoðunar verði mætt. Að nokkru leyti er það gert í þessu frumvarpi en svo er tekið fram að starfshópur sé að vinna að nánari skoðun á þessu og hann skili tillögum sínum á seinni hluta þessa árs. Nú er þetta mál búið að vera í vinnslu væntanlega allt þetta kjörtímabil að einhverju leyti en skýrsla Ríkisendurskoðunar birtist í október 2019. Það hefði verið æskilegt að menn hefðu náð að klára og getað sýnt fram á í hvað stefnir með þetta mál frekar en að þurfa að bíða með það. En látum það liggja á milli hluta. Það er margt ljómandi gott í þessu.

Eitt varðandi óvissuna vil ég þó nefna sérstaklega þar sem gert er ráð fyrir að skilja eftir fyrir ráðherra til þess að afgreiða í greinargerð ákveðin skilyrði sem efnið þarf að uppfylla til að teljast hæft til að njóta þessa stuðnings. Nú er ég búinn að týna þessari setningu, herra forseti, en hún snýst um að efnið uppfylli kröfur um ákveðin menningarleg áhrif. Það hefði verið betra að fá aðeins nánari skilgreiningu á slíku. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég á býsna mikið eftir hér og bið hæstv. forseta að skrá mig aftur á mælendaskrá.

(Forseti (BLG): Game of Thrones gæti verið þýtt sem Krúnuleikarnir eða Hásætaleikarnir, það eru nokkrar mögulegar þýðingar.)