151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[10:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2021. Ríkisstjórnin kynnti í lok apríl áframhaldandi efnahagsaðgerðir vegna heimsfaraldursins. Um er að ræða fjórða aðgerðapakkann af þessu tagi en áður voru aðgerðapakkar af þessu tilefni kynntir í mars, apríl og nóvember á síðasta ári. Fjárheimilda vegna þeirra aðgerða var aflað í nokkrum fjáraukalögum innan ársins í fyrra og í fjárlögum ársins í ár.

Í þeim aðgerðum sem síðast voru kynntar var verið að framlengja og innleiða á annan tug efnahagsaðgerða til að mæta afleiðingum faraldursins. Að mestu leyti er um að ræða aðgerðir og tillögur sem tengjast afgreiðslu annarra lagafrumvarpa og/eða reglugerðarbreytingum og meiri hlutinn setur fram töflu með málsnúmerum frumvarpa til frekari glöggvunar. Nær allar útgjaldatillögur frumvarpsins skýrast af tilefnum sem rekja má til heimsfaraldursins og ætlað er að mæta efnahagslegum og samfélagslegum afleiðingum hans.

Heildarfjárheimildir frumvarpsins nema 14.550 millj. kr. og þar af eru 12.180 millj. kr. sem eru háðar ýmist lagabreytingum eða reglugerðarbreytingum. Þess má geta að nú þegar er búið að birta þær reglugerðir sem nauðsynlegar eru vegna útgjaldatilefna frumvarpsins. Þannig er óskað eftir því að auka fjárheimildir um 14.550 millj. kr. Þar af eru 13 milljarðar kr. sem tengjast heimsfaraldrinum og eru að mestu til komnir vegna þess aðgerðapakka sem um ræðir. Við bætast 570 millj. kr. sem má rekja til afleiðinga faraldursins og loks er gert ráð fyrir 1 milljarðs kr. framlagi vegna hækkunar á daggjöldum hjúkrunarheimila á árinu.

Af einstökum tillögum munar mest um 4,4 milljarða kr. framlag vegna ráðningarstyrkja, en fyrirtæki eiga þess nú kost að fá styrk með endurráðningu starfsmanns í skertu starfshlutfalli. Næstmest vegur 4,3 milljarða kr. framlag vegna verkefnisins Hefjum störf, sem hefur að markmiði að skapa um sjö þúsund tímabundin störf fyrir langtímaatvinnulausa og námsmenn. Þá er gerð tillaga um 1,6 milljarða kr. framlag vegna greiðslu barnabótaauka sem nemur 30.000 kr. fyrir hvert barn.

Eina tillagan sem ekki er beint tengd heimsfaraldrinum er 1 milljarður kr. til hækkunar á daggjöldum hjúkrunarheimila. Gerð er tillaga um 600 millj. kr. til geðheilbrigðismála sem skiptist á nokkra málefnaflokka, m.a. framhaldsskóla og háskóla. Ákvörðun sem tekin var í fyrra um svokallaða ferðagjöf er endurnýjuð á þessu ári og lögð til 750 millj. kr. heimild í því skyni.

Aðrar tillögur frumvarpsins vega minna og vísast til greinargerðar frumvarpsins til skýringar á þeim.

Tillögurnar fela í sér áhrif á afkomuhorfur ársins en í fjárlögum ársins var gert ráð fyrir 326,1 milljarðs halla. Nú er gert ráð fyrir, samkvæmt mati og þrátt fyrir útgjaldaáhrif nýrra ráðstafana, 21,3 milljarða, að teknu tilliti til endurmats annarra liða og tekjuáhrifa séreignarsparnaðar, að hallinn verði 328 milljarðar eða sem nemur 10,5% af vergri landsframleiðslu og er innan marka gildandi fjármálastefnu. Auðvitað er enn nokkur óvissa um þróun innan ársins en meiri hlutinn vekur athygli á því að almennur varasjóður er um 1,7% af fjárlögum eða 20,3 milljarðar kr. og er ríflega umfram lögbundið 1% hlutfall í þeim tilgangi að hægt verði að mæta óvissu og fjármögnun óvæntra útgjalda vegna Covid-19 auk þess sem mæta þarf útgjöldum vegna útfærslu launabóta vegna breytinga á vaktavinnufyrirkomulagi í kjölfar styttingar vinnuvikunnar.

Í nefndarálitinu er vinna nefndarinnar rakin og tíminn nýttur til að rýna betur og kalla eftir skýringum og rökstuðningi umfram það sem fram kemur í ítarlegri greinargerð með frumvarpinu.

Í tengslum við nýsamþykkta fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026 fjallaði nefndin nokkuð ítarlega um málefni hjúkrunarheimila. Í nefndaráliti meiri hluta er meðal annars fjallað um nýlega skýrslu um afkomu heimilanna sem byggðist á greiningu á uppgjöri áranna 2017–2019 og fyrri helmingi ársins 2020.

Í skýrslunni kom fram að mörg heimilanna hafa verið rekin með halla undanfarin ár. Árið 2019 var samanlagður halli þeirra sem voru rekin með tapi rétt tæpur milljarður kr. Ákveðið vanmat kemur þó fram í þeim tölum þar sem framlög sveitarfélaga eru talin til tekna heimilanna auk daggjalda frá ríkissjóði. Árið 2019 náðu einungis 13% heimilanna jákvæðri rekstrarafkomu án greiðslna sem sum þeirra fá frá sveitarfélögum.

Enn ber of mikið á milli í túlkun og greiningu á skýrslu um hjúkrunarheimilin. Sérstaklega vantar upp á að fyrir liggi fullnægjandi greining á mismunandi kostnaði á milli heimila. Heilbrigðisráðuneytið hefur upplýst nefndina um nokkra þætti sem þarf að vinna betur, eins og um færslu kostnaðar vegna húsnæðis og hvernig hann fellur að daggjaldagrunninum.

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að lyfja- og hjálpartækjakostnaður heimilanna hefur hækkað um 28% á þremur árum sem er langt umfram verðlag en meiri hlutinn fjallaði sérstaklega um fyrirkomulag á greiðslum vegna hjálpartækja og lyfja í nefndaráliti sínu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021. Heilbrigðisráðuneytið hefur upplýst fjárlaganefnd um vinnu í framhaldi af því. Koma þarf í betra horf skilgreiningum á því hvaða hjálpartæki eigi að vera búnaður heimilanna og hvaða hjálpartæki fylgi heimilisfólki.

Á örfáum árum hefur meðhöndlun heimilismanna orðið þyngri og mikilvægt að geta fylgt því eftir með meiri sérhæfingu í umönnun. Á undanförnum þremur árum hefur meiri hlutinn í tvígang hækkað framlög til heimilanna við 2. umr. fjárlaga, samtals um 577 millj. kr., og byggðist hækkunin á útreikningum um hækkun hjúkrunarþyngdar.

Sjónarmið meiri hlutans er að þátttaka í lyfjakostnaði einstaklinga eigi að vera innan almenna lyfjaniðurgreiðslukerfisins. Slíkt gerir rekstur hjúkrunarheimila gegnsærri og jafnar stöðu þeirra. Slíkt er einnig réttlætismál gagnvart einstaklingum sem þurfa á mismunandi lyfjum að halda.

Meiri hlutinn gerir tillögu um 300 millj. kr. fjárveitingu í sjóð hjá Sjúkratryggingum Íslands, en í þann sjóð geta rekstraraðilar hjúkrunarrýma sótt viðbótarfjármagn ef þjónusta við einstaka heimilismenn er tímabundið eða varanlega verulega umfram hefðbundið framlag samkvæmt mati á hjúkrunarþyngd. Í nokkrum tilfellum geta heimilismenn kallað á mikla og dýra mönnun, dýr lyf eða sérstök hjálpartæki, og flokkast þeir þá sem svokallaðir útlagar hvað varðar kostnað, sem verður umtalsvert meiri en daggjöldin standa undir. Því er lagt til að rekstraraðilar hjúkrunarrýma geti sótt um viðbótargreiðslur vegna hjálpartækja og lyfja og sérstakrar umönnunar heimilismanna með miklar hjúkrunarþarfir, vegna áranna 2019, 2020 og 2021, þ.e. það ár sem rekstrarsamningur var ekki í gildi og þau tvö ár sem núgildandi samningur tekur til. Lagt er til að heilbrigðisráðuneytið setji nánari reglur um skiptingu framlagsins og Sjúkratryggingar Íslands sjái um framkvæmd þeirra.

Meiri hlutinn telur að með þessari aðgerð megi til viðbótar við tillögu í frumvarpinu bæta nokkuð rekstur heimilanna. Meiri hlutinn leggur áherslu á að lyfjakostnaður megi aldrei verða sjálfstæður hvati til að velja á milli þeirra sem þurfa á þjónustu hjúkrunarheimila að halda.

Gerð er tillaga í frumvarpinu um 1 milljarðs kr. hækkun til að styrkja rekstrarstöðu heimilanna og með því liðkað fyrir framlengingu á samningum heimilanna við Sjúkratryggingar Íslands. Ákvörðun fjárhæðarinnar tekur mið af greiningu í skýrslunni um árlegan meðaltalshallarekstur undanfarinna ára.

Meiri hlutinn bendir á að til viðbótar koma um 800 millj. kr. launabætur sem er ætlað að bæta kostnað heimilanna vegna breytinga á vaktavinnufyrirkomulagi til að uppfylla ákvæði kjarasamninga um styttingu vinnuvikunnar. Á heilu ári er sú fjárveiting áætluð um 1,2 milljarðar kr. Viðbótarfjárveitingin og launabæturnar koma til hækkunar á daggjöldum stofnana og verður hækkunin að meðaltali um 4%.

Framlög undanfarinna ára og skipting þeirra í rekstur og fjárfestingu er sett fram í sérstakri töflu til frekari glöggvunar.

Meiri hlutinn bendir á að það kann að koma til þess að endurmeta þurfi framlögin að nýju þegar greiningarvinnu í kjölfar skýrslunnar er lokið af hálfu ráðuneyta en í því sambandi ber að hafa í huga að á síðastliðnum árum hefur verið gert stórátak í fjölgun heimila og aukningu fjármuna til rekstrar. Leita þarf enn frekari kosta í þjónustu við aldraða en fyrst og fremst þarf að koma rekstri hjúkrunarheimila sem þegar eru í rekstri í viðunandi horf.

Í tengslum við vinnu málsins var farið yfir málefni Landspítalans og mættu fulltrúar spítalans á fund nefndarinnar og gerðu ítarlega grein fyrir niðurstöðu síðasta árs og afkomuspá þessa árs. Í stuttu máli má segja að reksturinn sé í jafnvægi en það er sagt með tilliti til nokkurra kostnaðarþátta og frávika sem þarf að yfirfara betur í samtölum stjórnenda og ráðuneyta, m.a. kostnaðar vegna faraldursins og kostnaðar vegna kjarasamninga. Í samræmi við samkomulag milli ráðuneyta heilbrigðismála og fjármála er miðað við að spítalinn verði rekinn innan fjárheimilda í þrjú ár. Gangi það eftir er ætlunin að leggja til við fjárlaganefnd og Alþingi að fella niður eldri uppsafnaðan halla. Meiri hlutinn bendir á mikilvægi þess að uppsafnaður halli hamli ekki starfseminni og leggur áherslu á að ráðuneytið tryggi aukið gagnsæi þegar kemur að mati á kostnaðaráhrifum kjarasamninga þannig að ekki komi stöðugt til ágreinings um kostnaðarmat þeirra.

Aðstæður í þjóðfélaginu kalla fram breytingar og fólk missir atvinnu og leitar í auknum mæli í nám sem er mikilvægt. Ráðherra menntamála og ríkisstjórnin hafa lagt áherslu á að mæta þeirri fjölgun og taka á móti öllum sem sækja í skólana. Meiri hlutinn hefur kallað eftir upplýsingum um þá þróun og áætlaðan nemendafjölda og lagt mat á fyrirliggjandi framlög fjárlaga. Ljóst er að óvissa um þróun nemendafjölda í háskólunum er mikil, ekki síst í ljósi breytinga á atvinnuleysi. Umsóknarfrestur fyrir komandi skólaár er ekki liðinn en reynsla undanfarinna ára sýnir að margir bíða fram á síðustu stundu með að skrá sig til náms. Áreiðanlegra mat fæst þegar kallað verður eftir nýjum tölum þegar umsóknarfresti er lokið og nemendur hafa greitt skráningargjöld í ágúst. Engu að síður benda skráningar til að hækka þurfi fjárveitingar til háskóla til að fullfjármagna nemendafjöldann miðað við reiknilíkan um kennslukostnað.

Samþykkt var 2,7 milljarða kr. framlag á fjárlögum til að fjármagna átaksverkefnið Nám er tækifæri þar sem atvinnuleitendum er veitt tækifæri til þátttöku í námsúrræðum, bæði á framhalds- og háskólastigi. Áætlanir um þátttöku hafa ekki gengið sem skyldi miðað við þátttöku á vormisseri. Gera má ráð fyrir því að eftirstöðvar af upphaflegu framlagi til átaksverkefnisins Nám er tækifæri, sem veitt var í fjárlögum fyrir árið 2021, verði tæpir 1,6 milljarðar kr., 138 millj. kr. á háskólastigi og 1.444 millj. kr. á framhaldsskólastigi.

Í ljósi þessa gerir meiri hlutinn tillögu um millifærslu af málefnasviði framhaldsskóla yfir á málefnasvið háskóla sem nemur 1.444 millj. kr.

Meðal þeirra úrræða sem gerð er tillaga um í frumvarpinu er 260 millj. kr. framlag vegna styrks til atvinnuleitenda sem hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur.

Við endurmat á tillögunni hefur komið í ljós vanmat. Skýrist það af því að við útreikninga á kostnaði var gert ráð fyrir að meðalbótahlutfall þessa hóps atvinnuleitenda væri það sama og þegar tekið er mið af öllum sem voru án atvinnu á árinu 2020 eða um 72%. Við nánari eftirgrennslan reyndist bótahlutfallið hins vegar hærra eða 92%. Það eykur áætlaðan kostnað aðgerðarinnar þar sem styrkurinn er greiddur í hlutfalli við bótarétt hvers og eins. Aukning kostnaðar gæti numið um 90 millj. kr. og væri þá umfang styrksins um 350 millj. kr. með þeirri breytingartillögu sem meiri hlutinn stendur að til samræmis við framkomnar upplýsingar á fundi nefndarinnar. Útgjaldaheimildin hækkar með þessari breytingu um 90 millj. kr.

Meiri hlutinn kynnti sér sérstaklega stöðu og fjármögnun verkefnis um styttingu vinnuvikunnar og gerir sérstaklega grein fyrir áhrifum þess á helstu stofnanir. Verður það að fullu fjármagnað með því að nýta almenna varasjóðinn. Um nánari umfjöllun vísa ég til nefndarálits meiri hlutans.

Meiri hlutinn dregur saman breytingartillögur sínar í sérstökum kafla í lok nefndarálitsins, auk þess sem þær er að finna á þskj. 1673. Ég hef nú þegar gert grein fyrir þeim flestum, virðulegi forseti. Þar var um að ræða millifærslu af framhaldsskólastigi yfir á háskólastig til að mæta fjölgun nemenda, aukin framlög á málefnasviði 25 vegna hjúkrunarheimila, 300 millj. kr. í sérstakan sjóð til að mæta rekstrarvanda hjúkrunarheimila, og 90 millj. kr. hækkun á málefnasviði 30, vinnumarkaður og atvinnuleysi, vegna endurmats á styrk til atvinnuleitenda.

Auk þeirra breytingartillagna sem ég fór yfir er gerð tillaga um breytta hagræna skiptingu á 250 millj. kr. framlagi vegna alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Í frumvarpinu er það skráð sem rekstrarframlög en nú er því breytt í rekstrartilfærslu í samræmi við eðli útgjaldanna.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið hér og ég fór yfir og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir þetta nefndarálit rita eftirtaldir hv. þingmenn: Willum Þór Þórsson, Haraldur Benediktsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Páll Magnússon og Steinunn Þóra Árnadóttir.