151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[11:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna um hjúkrunarheimilin. Ég vil byrja á því að taka það fram, af því að hv. þingmaður endaði fyrra andsvar á því að tala um aðför að landsbyggðinni, að ég hafna því alfarið. Það er ekki að gerast. Varðandi hjúkrunarheimilin ætla ég ekki að standa hér og segja að allt sé fullkomið. Við þekkjum þennan vanda og við höfum stöðugt verið með hann til umfjöllunar í fjárlaganefnd allt kjörtímabilið. Ég ætla samt að minna á að þegar við afgreiddum fjármálaáætlun settum við 10 milljarða inn í kerfið, í reksturinn. Nú er ég bara að draga fram umfangið. Á kjörtímabilinu hafa framlögin aukist um 42% ef við tökum bara daggjöldin, þannig að það er ekki eins og ekki sé verið að reyna að mæta þessu. Hv. þingmaður kemur hins vegar mjög skýrt inn á það að við verðum að hugsa í lausnum. Við verðum að hugsa til fjölbreyttari búsetuforma, aukins stuðnings við aldraða vegna þess að svona mun kerfið ekki geta gengið áfram og það þekkir hv. þingmaður best.