151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[12:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er að reyna að stuðla að ígrundaðri umræðu um þingmál og þetta finnst mér einmitt vanta til að það sé hægt og til að losna við geðþóttaákvarðanir sem við sjáum alls staðar, í stjórnsýslunni og ekki síst í pólitíkinni. Guð minn góður, það er rosalegt. Það er ýmislegt sem gæti lagað þetta, t.d. að mál lifi yfir á næsta þing, að þau falli ekki niður milli þinga þannig að byrja þurfi upp á nýtt o.s.frv. Maður hefur líka heyrt að ráðherrar séu oft í slag við stjórnsýsluna. Ég lít þannig á, og ég held að það sé því miður ekki stundað þannig, að ráðherrar séu fulltrúar þingsins í stjórnsýslunni, hjá framkvæmdavaldinu. Þeir taka vissulega ábyrgð o.s.frv. og skilgreiningin er þannig. En þeir eru í raun og veru fulltrúar þingsins þar. Þess vegna eru þeir með traust þingsins, eða vantraust þess ef svo ber undir, til að sinna því starfi að passa upp á að stjórnsýslan vinni faglega, t.d. samkvæmt lögum um opinber fjármál, að stjórnsýslan skili faglegum góðum niðurstöðum til þingsins til úrvinnslu.

Ég ætla að leyfa mér að efast um að ráðherrar hafi verið að gera það hingað til. Ég vonast til að hægt verði að betrumbæta það á næsta kjörtímabili. En það er ekkert auðvelt, það er langt því frá auðvelt. Af því að maður hefur heyrt um að ráðherrar séu í ákveðnum slag við stjórnsýsluna þá myndi ég vilja sjá ráðherra koma meira til þingsins bara til að fá stuðning þess, því að þeir eru oft að vinna að mjög góðum endurbótum innan stjórnsýslunnar. Eins og ég segi erum við ekki faglegt teymi, við erum teymi sem vinnur út frá sannfæringu. (Forseti hringir.) Það krefst umsagnar faglegra aðila (Forseti hringir.) og faglegrar stjórnsýslu sem við reynum að vega og meta hvort einhverjir brestir séu á.