151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[13:04]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Ég ætla aðeins að byrja á einkarekstrinum og heilbrigðiskerfinu. Já, þetta er merkilegt. Það sem mér finnst líka mjög merkilegt er að nú hafa farið fram prófkjör í Sjálfstæðisflokknum þannig að óvenjumikið hefur verið um auglýsingar og greinaskrif og mikla baráttu þar, sem eðlilegt er. Þar tek ég eftir því að eitt það helsta sem margir nefna er að nauðsynlegt sé að kjósa Sjálfstæðisflokkinn til þess að tryggja að heilbrigðiskerfinu verði bjargað og einkarekstri aftur hleypt að. Það er eins og þetta ágæta fólk þekki bara engan nærri sér sem hefur komið nálægt þessari ríkisstjórn. Það er alveg rétt að hæstv. heilbrigðisráðherra er á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna allra og Sjálfstæðisflokkurinn, sem nú fer mikinn, getur ekkert vikið sér undan því. Ég held því að mjög varasamt sé fyrir fólk sem ætlar að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum að búast við breytingum í heilbrigðismálum, gangi yfirlýsingar þessa tríós eftir um að þau eigi sér þann draum heitastan að vinna saman.

Varðandi hina spurninguna er það eiginlega með svo miklum ólíkindum að maður bara kemur ekki orðum yfir það. Öll þessi börn sem um er að ræða hafa verið í skólakerfinu. Það er nákvæmlega vitað hversu mörg þau eru og að þau muni sækjast eftir því að komast í áframhaldandi nám. Það er náttúrlega algerlega óboðlegt — ég tala nú ekki um í tíð ríkisstjórnar sem leggur lykkju á leið sína til að nefna nýtt ráðuneyti eða nýjan ráðherra barnamálaráðherra og með menntamálaráðherra sem er í stórsókn á öllum sviðum. Í stórsókninni, sem er nú ekki mikil stórsókn, finnst mér, stendur ansi mikið út af borðinu (Forseti hringir.) og það er ótækt að það skuli í þessu tilviki vera þessi fötluðu börn.