151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:22]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þegar frá var horfið í síðustu ræðu var ég búinn að rekja stuttlega þær aðgerðir sem boðaðar eru í þessu frumvarpi og framlengingu fyrri aðgerða varðandi vinnumarkað og atvinnuleysi. Við höfum stutt allar þessar aðgerðir, eins og aðrar sem miða að því að bregðast við efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins. En þær eiga það hins vegar sameiginlegt, þær aðgerðir sem raktar eru í þessum kafla um vinnumarkað og atvinnuleysi, að vera ekki bara tímabundnar heldur til þess fallnar að fresta vandanum í ákveðinn tíma. Þegar ráðist er í það sem kalla má frestunaraðgerðir hljóta menn að vilja hafa einhverja hugmynd um hvað á svo að taka við. Þar finnst mér mikið vanta upp á hjá ríkisstjórninni að hún hafi lagt línurnar með hvaða hætti megi búast við því þegar þessi tími er liðinn. Til að mynda er ein aðgerð sem á að klárast fimm dögum eftir kosningar. Hvernig á að ýta undir líkurnar á því að til að mynda það fólk sem er ráðið með styrk frá ríkinu til fyrirtækja haldi vinnunni að þeim tíma liðnum? Það verður ekki gert nema með því að búa fyrirtækjum á Íslandi, og þá alveg sérstaklega minni fyrirtækjunum, en þar verða flest störf til, það rekstrarumhverfi að fyrirtækin geti staðið undir því að greiða sem flestum sem best laun og bæta þannig kjör landsmanna.

En nú fer stór hluti af tíma fyrirtækja í annað en að búa til verðmæti og eðli máls samkvæmt kannski hlutfallslega mestur tími hjá minni fyrirtækjunum í það að uppfylla sífellt nýjar kvaðir og eiga við kerfið. Svo bætist það ofan á að kostnaður við rekstur fyrirtækja hefur aukist mjög umtalsvert. Á því eru auðvitað ýmsar skýringar. En skattbyrði, skattar á launafólk eru með þeim hæstu í heimi á Íslandi, ef við tökum lífeyrissjóðsgreiðslur með í reikninginn, og það er eðlilegt að gera það í samanburði við önnur lönd, enda greiða menn oftar en ekki í lífeyrissjóð með sköttunum sínum þar.

Það er sem sagt orðið mjög dýrt að koma hverri krónu í launaumslagið, ef svo má segja, ef fyrirtæki þarf í rauninni að borga 2.000 kr. til að koma 1.000 kr. í launaumslag starfsmannsins. Það þýðir ekki bara að starfsmaðurinn heldur minna eftir og hefur þannig í rauninni lakari kjör, þetta hamlar líka möguleikum fyrirtækisins til að fjölga fólki, ráða fleira fólk í vinnu. Svoleiðis að ef við ætlum að búa til þann umtalsverða fjölda starfa sem mun þurfa að verða til á Íslandi á næstu misserum, ég tala nú ekki um núna eftir þessa miklu efnahagslegu niðursveiflu sem fylgdi faraldrinum, þarf að leggja línurnar um að bæta starfsumhverfi lítilla fyrirtækja á Íslandi. Ég sakna þess að ríkisstjórnin hafi sinnt því á þessu kjörtímabili, reyndar um leið haldið áfram að leggja nýtt og íþyngjandi regluverk á þessi fyrirtæki. Ég sakna þess sérstaklega að slíkt hafi ekki komið fram að neinu merkjanlegu leyti í tengslum við umfjöllun um þessar bráðabirgðaaðgerðir þannig að menn hefðu þá einhverja hugmynd um hvað tæki við af þeim. Þeir sem eru hugsanlega að hugleiða að ráða starfsmenn í vinnu með þessum ríkisstyrk vilja væntanlega hafa einhverja hugmynd um það hvað tekur svo við í framhaldinu.