151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:32]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér fjáraukalög fyrir árið 2021. Það eru ýmis málefni sem ástæða er til að ræða en það eru til að mynda aukafjárveiting í samgöngumálum og aukafjárveiting til hjúkrunarheimila. Það er auðvitað mjög góðra gjalda vert að 1 milljarði kr. skuli vera bætt við í hjúkrunarheimilin, en eins og kemur fram í nýlegri skýrslu þá eru þau vanfjármögnuð. Þar er reyndar bersýnilega verk að vinna, herra forseti, í ljósi þess að það eru skilgreindar kröfur til hjúkrunarheimila, m.a. af hálfu embættis landlæknis og heilbrigðisráðuneytisins, en daggjöldin eins og þau eru reiknuð virðast ekki taka nægilega mið af þessum kröfum. Nú er það auðvitað þekkt eins og við vitum að þjóðin eldist, það eru lýðfræðilegar staðreyndir, öldruðum fjölgar og þá sömuleiðis hinum háöldruðu sem ýmist eru skilgreindir 80 ára og eldri eða 90 ára og eldri. Þetta er gert að umræðuefni í skýrslu hóps sem var falið að kanna rekstrarkostnað hjúkrunarheimila og það liggur auðvitað alveg fyrir að með hærri aldri þurfa vistmenn, eða íbúar, á hjúkrunarheimilum meiri hjúkrun en áður og af hálfu sérhæfðara starfsfólks. Þetta heitir á fræðimálinu, eins og maður les í þessum skýrslum, aukin hjúkrunarþyngd og gerir rekstur þessara hjúkrunarheimila fyrirsjáanlega kostnaðarsamari eftir því sem fram líða stundir. Það er, eins og ég segi, góðra gjalda vert að þarna er varið milljarði í viðbót en það vantar með mjög áberandi hætti framtíðarstefnu í þessum málaflokki um framlög ríkisins í málaflokkinn og mér finnst, hafandi átt sæti í fjárlaganefnd um tíma, að við sjáum hvað eftir annað endurtekið efni í þessum málaflokki, vanfjármögnun og ekki nægjanlega samsvörun á milli þeirra krafna sem eru gerðar og þeirra daggjalda sem eru greidd.

Ég get ekki varist því, herra forseti, að nefna, úr því að þarna er ákvörðun um að setja liðlega 100 milljónir í rekstur Strætó, og það vekur náttúrlega upp tengsl við þetta borgarlínufyrirbæri, að það er eins og það sé opinn krani úr ríkissjóði inn í borgarlínu. Við þekkjum að uppi eru ráðagerðir um að ríkissjóður setji 50 milljarða í verkefnið. Síðan á að setja söluandvirði Keldnalands inn í þetta verkefni sem enginn veit hvað kostar, en það hefur verið kastað fram tölum 70, 80, 100 milljarðar og þaðan af hærra, herra forseti. Síðan er talað um að setja ætti í þetta söluandvirði Íslandsbanka. Nú er verið að selja hlut í Íslandsbanka en ekkert hefur verið upplýst um hvernig eigi að ráðstafa því söluandvirði. Ég vildi gjarnan gera að umtalsefni þær tillögur sem liggja fyrir af hálfu áhugahóps um betri samgöngur á höfuðborgarsvæðinu Þessi hópur er settur saman af sérfræðingum, verkfræðingum, m.a. með sérþekkingu á umferð, hagfræðingum og öðrum slíkum og þeir hafa lagt fram tillögur um almenningssamgöngur sem þeir telja að kosti 80 milljörðum minna en hin fyrirhugaða Borgarlína. Tillögur þessa hóps, sem kallar sig ÁS, eru allrar athygli verðar.