151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:38]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við erum að ræða frumvarp til fjáraukalaga enn og aftur. Ég var að tala síðast um borgarlínu og sagði að hér væri verið að leggja til Strætó bs. 120 milljónir til að koma til móts við tekjutap, í kórónuveirufaraldrinum líklega, farþegum hefur eitthvað fækkað hjá Strætó á þessum tíma og ríkið hleypur undir bagga. Þetta eru, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, auðvitað smáaurar, herra forseti, í stóra samhenginu þegar kemur að því að ríkisvaldið neyðist til að taka þátt í svokallaðri borgarlínu, verkefnum sem tengjast henni, uppbyggingu þeirrar línu sem mun kosta tugi eða hundruð milljarða. Þarna er verið að ráðast í verkefni, herra forseti, þar sem menn sjá ekki fram fyrir sig í þeim útgjöldum sem bersýnilega mun leiða af þessari borgarlínuframkvæmd og hafa menn nefnt að útgjöld gætu farið hátt í 200 milljarða þegar upp verður staðið. Þær tölur hafa verið nefndar.

Þar með er ekki öll sagan sögð vegna þess að þegar kemur að því að reka þetta batterí þá kemur fyrst til kasta sveitarfélaganna og ríkisins að greiða það niður. Við höfum brennt okkur á því, herra forseti, margoft á umliðnum árum, að þegar við reynum að auka þann fjölda sem nýtir sér strætisvagna þá höfum við ekki haft erindi sem erfiði. Í þetta verkefni hafa verið veittir fleiri milljarðar síðustu ár, 1 milljarður á ári sérstaklega til verkefnisins, en árangurinn hefur ekki verið neinn. Farþegum í strætó hefur ekki fjölgað, hlutfall þeirra sem nýta sér vagnana hefur ekki aukist á síðustu árum og hefur verið rétt um 4%. Til að reka eitthvað í líkingu við það sem kalla mætti borgarlínu eru menn að tala um mikið hærra hlutfall fólks sem nýtir sér almenningssamgöngur en við höfum verið að horfa upp á í áratugi á höfuðborgarsvæðinu.

Menn eru fullbjartsýnir og fara auðvitað þá leið að hamla för einkabifreiðarinnar, fólksbifreiðarinnar, og ætla að neyða fólk til að hoppa yfir í strætisvagnakerfið með tilkomu hinnar svokölluðu borgarlínu. Að ætla sér að hækka þetta hlutfall úr 4% er auðvitað verðugt verkefni og hugsanlega mun hlutfallið aukast lítillega en til að réttlæta að ráðist sé í svona framkvæmdir þarf margfalt hærra hlutfall en 4%. Erlendir sérfræðingar hafa talað um 40%. Þá erum við að tala um stórborgir þar sem menn komast lítt áfram á einkabíl og menn þekkja það erlendis að menn taka auðvitað bara neðanjarðarlestir og strætisvagna til að komast ferða sinna innan þessara borga. Við höfum bara ekki búið við það hér á höfuðborgarsvæðinu að komast ekki leiðar okkar á fjölskyldubílum. Okkur hefur tekist það þótt það hafi syrt verulega í álinn síðustu ár.

Hvað varðar samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu þá hefur ekki verið framkvæmt neitt að ráði í mörg ár, t.d. mislæg gatnamót. Í fljótu bragði held ég að engin mislæg gatnamót hafi verið byggð hér í fleiri ár, má vera að ég gleymi einhverju en fyrir 20–30 árum var verið að smíða mislæg gatnamót nánast alltaf á hverjum tíma. En nú á að leggja þetta af til að auka hlutfall þeirra sem nýta sér strætó. En árangurinn er enginn, herra forseti, þannig að við erum að horfa þarna á 120 milljónir til að bjarga taprekstri Strætós. En það eru auðvitað bara smámunir miðað við það sem við þurfum að leggja í þetta verkefni á næstu árum og eflaust kemur oft inn í þennan sal umræða um það á næstu árum og ég vona að við getum snúið af þessari braut. Það er hægt og sérfræðingar hafa bent á leiðir til að bæta þetta kerfi þannig að það gagnist þeim sem nýta sér það á miklu ódýrari hátt en lagt var til með borgarlínuverkefninu.

Ég ætlaði líka að tala um samgönguframkvæmdir fyrir utan höfuðborgina. Ríkisstjórnin hefur boðað alveg frá því hún tók við fyrir tæpum fjórum árum síðan að nú ætti að ráðast í hinar og þessar samgönguframkvæmdir. Síðan eru liðin næstum fjögur ár. Hvað er verið að gera? Menn tala og tala en er eitthvað verið að framkvæma? Jú, það er búið að tvöfalda 3 km spotta rétt hjá Hveragerði og búið að tvöfalda í Hafnarfirði álíka spotta út að Straumsvík. Þá er það næstum upptalið, herra forseti. Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng voru löngu hafnar áður en þessi ríkisstjórn kom þannig að verkleysið er afskaplega mikið.

Það er mikið talað, mikið lofað, mikið sett á blað, miklar áætlanir. En viðkvæðið er alltaf, herra forseti, og ég hef rætt það í þessum ræðustól áður: Við erum að fara að gera þetta. En staðreyndin er sú að þetta er allt sett í fang næstu ríkisstjórnar. Hvar er Sundabrautin? Það bólar ekkert á undirbúningi fyrir hana, ekki nokkrum sköpuðum hlut. Ég hef ekki séð neinar áætlanir um tvöföldun Hvalfjarðarganga. Er eitthvað í gangi með Ölfusárbrú? Jú, þetta er allt á áætlun, þetta er allt að koma en það er ekkert að gerast. Hornafjarðarfljót, láglendisvegur og göng í gegnum Reynisfjall, hvar er það? Jú, þeir eru eitthvað byrjaðir að grafa uppi á Kjalarnesi, Vesturlandsveg, enda kominn tími til fyrir löngu, herra forseti, að þar yrði ráðist í eitthvað, svo aðkallandi var það.

Varðandi samgöngumál hefur þessi ríkisstjórn talað mikið, áætlað mikið, reiknað sig mikið fram, lagt hér fram alls kyns áætlanir og allar framkvæmdir eru að hefjast en þetta mun allt gerast í tíð næstu ríkisstjórnar, enda liggur sönnunin á borðinu, herra forseti. Við höfum það hér. Opinberar framkvæmdir, að mati Hagstofu Íslands, drógust saman árið 2019 um 9 komma eitthvað prósent og árið 2020 um tæplega 11%. Opinberar framkvæmdir drógust saman. Hversu skýr getur niðurstaðan orðið, herra forseti? Það er talað, það er áætlað, en þetta á allt að gerast síðar. Við erum orðin langþreytt á þessu í því atvinnuleysi sem nú er. Nú heyrum við fréttir af því að það eigi að framkvæma ægilega mikið í sumar. Við skulum vona að það séu ekki orðin tóm eða einhvers konar blaðra sem kemur svo í ljós að ekkert innihald er í.

Herra forseti. Ég er búinn með tímann. Ég á eftir að ræða lögregluna, er búinn með borgarlínuna aðeins og hjúkrunarheimilin en í síðustu ræðu minni ætlaði ég að ræða lögreglumálefnin. Ég óska eftir því að vera settur aftur á mælendaskrá.