151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

nýting á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni.

538. mál
[02:58]
Horfa

Frsm. fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil vel að þetta verður svolítið snúið þegar ég kem hér upp og bregst við því sem ég náði ekki sjálfur að fara yfir í andsvari. Ég ætlaði bara að koma hér upp og taka heils hugar undir með hv. þingmanni og segja að þegar nefndin er búin að gaumgæfa þetta, eins og gert var með mjög góðri aðstoð ritara nefndasviðs og ráðuneytis og þeirra sem unnu að undirbúningi og umsagnaraðilum, og reyna að draga þetta allt fram og síðan skila því í áliti, þá situr eftir hversu mikilvægt það er að hafa slíkan ramma. Þegar við horfum til þess að nýta land í eigu ríkisins og huga að almannahag og hafa af því tekjur, byggja upp atvinnu og skapa verðmæti, þarf að tryggja, eins og kemur fram í markmiðunum, að allir hafi möguleikana, þeir sem sinna þjónustu sem á við um tiltekin svæði, þeir sem vilja gera það.

Þrátt fyrir allt sem við ræddum hér um afrétti, þjóðlendur, þjóðgarða og allt gildissviðið, sem er mjög mikilvægt, situr það eftir að horfa til hagsmuna neytenda, hagsmuna leyfishafa, hagsmuna veitenda og á endanum til almannahagsmuna, að við nýtum land sem best og þannig að allir eigi möguleika og njóti jafnræðis þegar kemur að því hvert tekjurnar renni, (Forseti hringir.) að þegar einhver vafi kemur upp sé alla vega búið að semja um hann.