151. löggjafarþing — 114. fundur,  12. júní 2021.

launasjóður íslensks afreksíþróttafólks.

116. mál
[22:04]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks frá allsherjar- og menntamálanefnd.

„Nefndin hefur fjallað um málið og bárust umsagnir frá Hrafnhildi Lúthersdóttur, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Knattspyrnusambandi Íslands, Sundsambandi Íslands og Ungmennafélagi Íslands.

Tillagan felur í sér að mennta- og menningarmálaráðherra undirbúi og leggi fram frumvarp til laga um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra. Umsagnaraðilar taka undir tillöguna og leggja til að hún verði samþykkt.

Samhliða tillögu þessari hefur nefndin fjallað um tillögu til þingsályktunar um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum, sbr. 81. mál á yfirstandandi þingi. Málin eru efnislega sambærileg og því telur nefndin fullt tilefni til að þau verði unnin í sameiningu innan ráðuneytisins. Nefndin leggur því til að tillögu þessari verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu samhliða framangreindri stefnu. Við vinnslu slíkrar stefnu er mikilvægt að m.a. verði litið til framfærslu afreksíþróttafólks og fjárhagslegs öryggis þess. Að framangreindu virtu leggur nefndin til að þingsályktunartillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu samhliða mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álit þetta samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.“

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Páll Magnússon, Guðmundur Andri Thorsson, Birgir Ármannsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Virðulegur forseti. Við höfum hér í dag fylgst með löngum og kvalafullum dauðdaga hálendisþjóðgarðsins sem hefur kannski fengið ekki alveg ólík örlög og þetta mál hér. Ég tel þó ástæðu til að ætla að þetta mál sé ekki dautt og grafið heldur sé hér um að ræða upphaf að því að þetta brýna og mikilvæga hagsmunamál íslensks afreksíþróttafólks og Íslendinga og íslenskrar íþróttahreyfingar komist til framkvæmda. Það er mjög mikilvægt að auka réttindi og öryggi afreksíþróttafólks og það gerum við með slíkum starfslaunum. Við vitum að eftir íþróttaferil sinn stendur margt afreksíþróttafólk uppi með geysimiklar skuldir á bakinu og það er alveg réttindalaust. Afreksíþróttafólk hefur ekki lífeyrisréttindi eða stéttarfélagsaðild eða atvinnuleysisbætur eða aðgengi að sjúkrasjóðum eða starfsmenntasjóðum eða réttindi til fæðingarorlofs svo að eitthvað sé nefnt. Þess vegna er slíkur sjóður sanngirnis- og réttlætismál fyrir þetta fólk sem er þjóðinni mikilvægt. Ég geri mér því vonir um að þetta mál muni lifa áfram milli þinga og að við munum sjá það á næsta þingi verða að veruleika.