151. löggjafarþing — 119. fundur,  6. júlí 2021.

birting skýrslu um eignarhald í sjávarútvegi.

[13:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þetta. Þetta er mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að í stjórnarsáttmálanum segir að við þurfum að efla virðingu þingsins, og ég vil biðja forsætisráðherra að beita sér núna á síðustu dögum ríkisstjórnarinnar að þessi skýrsla líti dagsins ljós. Hún er algjört lykilplagg við kortlagningu á umsvifum íslenskra útgerðarfyrirtækja og dótturfyrirtækja þeirra í íslensku atvinnulífi. Þetta má ekki dragast af því að við þurfum að fá þessa skýru mynd. Við höfum staðið frammi fyrir því að stjórnmálaflokkar stingi skýrslum undir stól rétt fyrir kosningar og það er enginn sómi að því. Ég vil undirstrika að það er mikilvægt í þessum málum að við höldum áfram að tala um það hvernig við nýtum og umgöngumst auðlindirnar. Ég vil undirstrika þá stefnu okkar í Viðreisn að við teljum mikilvægt í þessu ljósi að fá skýrsluna fram en um leið að halda fram ítrekaðri kröfu okkar um tímabindingu samninga og að þjóðin fái eðlilegt gjald. (Forseti hringir.) Þetta eðlilega gjald fáum við best með því að tengja markaðinn við það, treysta markaðnum fyrir því frekar en að láta stjórnmálamenn, (Forseti hringir.) stjórnmálaflokka, möndla með það í rauninni í bakherbergjum hver raunverulegur hlutur þjóðarinnar er.