152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:12]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Til hamingju með 1. desember, fullveldisdaginn. Ég vil byrja á því að óska þingmönnum, sérstaklega nýjum þingmönnum, til hamingju með að hafa tekið sæti á hinu háa Alþingi. Það er mikill heiður að fá að sitja í þessum sal og fá tækifæri til að hafa áhrif til góðs í samfélaginu okkar. Það eru miklar skyldur lagðar á herðar okkar sem hér störfum í þágu lands og þjóðar. Okkar verkefni er að leiða þjóðina til aukinna lífsgæða á öllum sviðum. Okkar verkefni er að takast á við framtíðina.

Við í Framsókn lögðum mikla áherslu á bjartsýni og gleði í okkar kosningabaráttu. Við lögðum áherslu á það að fjárfesta í fólki, en það er lykillinn að sköpun lífsgæða og nýrra tækifæra á landinu okkar. Þess sér skýrt stað í nýjum stjórnarsáttmála Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Í stjórnarsáttmálanum eru loftslagsmálin áberandi enda er loftslagsváin það verkefni sem brýnast er í heiminum í dag og næstu ár og áratugi. Fólk hefur áhyggjur og það á sérstaklega við um unga fólkið sem sér framtíð sinni ógnað. Heiminum verður hins vegar ekki bjargað með því hafa áhyggjur. Óttinn getur haft lamandi áhrif. Þess vegna er sá tónn sem sleginn er í nýjum stjórnarsáttmála tónn vonar og bjartsýni. Við ætlum að nýta þær einstöku aðstæður sem við búum við hér á Íslandi, þá þekkingu sem við höfum á endurnýjanlegum orkugjöfum og þann kraft sem býr í fólki og atvinnulífinu til að leysa þau verkefni sem að okkur snúa og gefa öðrum verkfæri til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Við leggjum áherslu á að orkuskiptin eru sameiginlegir hagsmunir og að þeim verði náð með jöfnuði og réttlæti að leiðarljósi.

Sú mikla uppstokkun sem verður í Stjórnarráðinu er gerð til að endurspegla betur framtíðina og þau verkefni sem hún færir okkur. Við erum að ganga í gegnum miklar tæknibreytingar sem munu breyta og hafa verið að breyta lífi okkar og störfum. Breytingarnar eru hraðar og nauðsynlegt er að skapa aðstæður fyrir fólk og fyrirtæki til að nýta þau tækifæri sem skapast í breyttum heimi. Að samtvinna húsnæðis- og skipulagsmál við samgönguáætlun í sama ráðuneyti og sveitarstjórnar- og byggðamál til að mynda getur til skapað tækifæri til að finna betri og skilvirkari lausnir.

Áhersla er lögð á menntun, tækni og nýsköpun í nýjum jafnt sem rótgrónum atvinnugreinum, á nýsköpun í stjórnsýslu, skapandi greinar og menningu, allt með það að markmiði að skapa ný og græn störf um land allt. Afkoma ríkissjóðs er staðfesting þess að viðbrögð ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili við áhrifum heimsfaraldursins á heilsu og efnahag þjóðarinnar voru bæði rétt og skynsamleg. Afkoman sýnir okkur að það pólitíska jafnvægi sem ríkir á Íslandi er mikilvægt og á þessu jafnvægi getum við byggt frekari sókn til aukinna lífsgæða allra landsmanna, um allt land.

Eitt af stóru verkefnum ríkisstjórnarinnar verður að stuðla að uppbyggingu atvinnutækifæra hringinn í kringum landið til að fólk eigi aukna möguleika á því að velja sér þann stað þar sem það vill búa. Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta:

„Til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.“

Þessi orð marka að mörgu leyti tímamót í viðhorfi til starfa hjá ríkinu. Hér er ekki talað um störf án staðsetningar sem sérstakt atriði heldur er hugsuninni snúið við. Sérstaklega þarf að rökstyðja að störf séu staðbundin. Þetta er stórt mál. Einnig ætlum við að styðja við klasasamstarf hins opinbera og einkaaðila til að búa til starfsaðstöðu á lykilstöðum á landinu, en fyrsta verkefnið af þessu tagi er að hefjast á Selfossi og minni verkefni eru til um land allt.

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Við erum að hefja nýja sókn. Við leggjum upp með bjartsýni á framtíðina, bjartsýni á kraftinn sem býr í þjóðinni. Það er einlæg trú mín að samstarf þessara þriggja flokka, Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, flokka sem já, spanna litróf íslenskra stjórnmála, skapi jafnvægi sem er mikilvægur grundvöllur framfara. Sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er sáttmáli um að græn réttlát framtíð sé grundvöllur aukinna lífsgæða um land allt.