152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:37]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Kæru landsmenn. Hefur pólitík runnið sitt skeið á Íslandi? Íslensk stjórnmál komu löskuð út úr hruninu og þrjár ríkisstjórnir á átta árum bættu ekki úr skák. Það kviknaði sú tilfinning hjá fólki að til að tryggja stöðugleika þyrfti að mynda stefnu og stjórn um ekki neitt til að afmá pólitíkina úr Stjórnarráðinu, annars kæmumst við aldrei áfram, annars yrðu aldrei neinar framfarir. Það var mynduð stjórn að því er virðist um ekki neitt, sem vakti lítil viðbrögð. Rýnikannanir og ráðgjafar sníða nú burtu pólitíska sannfæringu setninganna svo þær veki ekki upp of miklar tilfinningar hjá fólki. Pólitík þykir orðið skammaryrði.

En íhaldssemi í stjórnarfari hefur orðið til þess að við förum á mis við tækifæri. Við töpum kröftum fólks og við eyðum háum upphæðum í skammtímaúrræði. Við höfum misst dýrmætan tíma og nú er svo komið að til að tryggja áframhaldandi stöðugleika þarf ákveðna róttækni til. Það þarf að taka pólitíska afstöðu.

Virðulegi forseti. Ég vil ekki búa í samfélagi þar sem það hverra manna þú ert ákvarðar hvers konar lífi þú munt lifa. Ég ræddi í kosningabaráttunni við unga konu sem býr í bílnum sínum vegna þess að tekjurnar duga ekki fyrir leigunni. Við sem hér sitjum á Alþingi getum tekið ákvörðun um að reka ekki samfélagið með slíkum hætti. Staðan á húsnæðismarkaði kemur okkur við. Staða þessarar ungu konu kemur okkur við.

Íbúðaverðshækkanir eru í dag einn helsti drifkraftur verðbólgu. Þær þrýsta á laun, auka kostnað sem aftur rennur í fasteignaverð og verðbólgu og leikurinn heldur áfram. Hér hefur skapast vítahringur sem verður að rjúfa, vítahringur sem er afleiðing ákvarðana einstaklinga sem hér inni sitja, ákvarðana sem móta markaðina sem ráða ferðinni þarna úti. Nú verðum við að hætta að verjast bara á húsnæðismarkaði og stíga skref og rjúfa þennan vítahring. En ég óttast að þeirri sókn og þeirri ábyrgð verði útvistað til annarra af ótta við það að afstaða í þessum málaflokki þyki of pólitísk.

Sveitarstjórnarstiginu hefur ítrekað verið beitt á undanförnum árum til þess að draga úr kostnaði og ábyrgð ríkissjóðs. Fyrirsagnirnar sitja eftir á borði ráðherra en kostnaðurinn, útfærslan og ábyrgðin lendir á sveitarfélögunum.

Málaflokk fatlaðs fólks skortir 9 milljarða kr. Farsældarfrumvarpið lendir að mestu á sveitarfélögunum þótt hólið hafi setið eftir hjá ráðherranum, og nú stefnir í að stærsta einstaka efnahagsmálið, eitt stærsta réttlætismálið sem ákvarðar hvernig ungt fólk fer af stað í lífinu, hvernig þessi kona fór af stað í lífinu, húsnæðismálunum, verði varpað áfram á sveitarfélögin.

Það vantar meira fjármagn frá ríkissjóði í uppbyggingu, stöðuga uppbyggingu húsnæðis á viðráðanlegum kjörum. Það vantar langtímaáætlun í húsnæðismálum. Það vantar að taka ábyrgð á þessum hápólitíska málaflokki sem hefur týnst í afstöðuleysi stjórnmála dagsins í dag. Það vantar pólitík.

Virðulegi forseti. Ég fór í stjórnmál til að taka afstöðu. Það er kominn tími á endurnýjun, tími á sókn, tími til að stigin verði stærri skref til að sýna fram á virði Alþingis og stjórnmálanna, tími til að leiða samfélagið og stunda alvörupólitík.