152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar þó að ég segi að mér finnist ríkið vera rosalega hægt í gang varðandi sjálfvirknivæðinguna og varðandi þá miklu framleiðniaukningu sem við þurfum á að halda. En gott og vel, það er farið af stað. Ég veit t.d. að þegar kemur að talmeinafræðingum innan ríkisgeirans er þjónustan fyrir börn um 11 stundir á viku á meðan hún er 33 stundir á einkamarkaði. Það er svolítið munurinn á því sem einkaaðilar geta gert og hvað hið opinbera er að gera. Það er því hægt að gera betur.

Ég vil líka undirstrika að við þurfum að velta fyrir okkur hverri krónu sem við setjum í aukin útgjöld, ekki síst með tilliti til þess sem seðlabankastjóri hefur verið að benda á. Hann hefur sagt að ef ríkisútgjöldin fari úr böndum, ef útgjöldin verði meiri en ríkissjóður okkar ræður við, ef við náum ekki að standa undir langtímasjálfbærni ríkissjóðs muni það hafa í för með sér vaxtahækkanir. (Forseti hringir.) Og við vitum hvað það þýðir fyrir heimilin í landinu, fyrir fyrirtækin í landinu og (Forseti hringir.) fjárfestingar fyrir okkur sem atvinnulífið þarf sárlega á að halda.