152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir ræðuna. Mig langar til að koma inn á atriði sem hann nefndi í ræðu sinni en það snýr að auðlindagjöldum og tillögum Samfylkingarinnar á fyrri stigum um að sækja meiri fjármuni í ríkissjóð í gegnum auðlindagjaldið. Ég ætla ekki að opna á umræðu um hversu hátt það eigi að vera og þar fram eftir götunum heldur fara meira út í svona prinsippnálgun. Mig langar að kalla fram sjónarmið hv. þingmanns varðandi það hvort til greina kæmi að taka þessar tekjur inn í gegnum skattkerfið eða hvort afstaða Samfylkingarinnar sé sú að þetta þurfi að vera á því formi sem er í dag, með auðlindagjaldi. Við þekkjum umræðuna um að þarna sé verið að greiða sérstakt gjald og það allt saman. En ég held að það sé flóknara að leysa mörg af þeim álitaefnum sem eru uppi í þessari umræðu á meðan nálgunin er á veiðigjaldsforminu. Það væri auðveldara að leysa sumt af því í gegnum skattkerfið, hvort sem það væri viðbótarskattur eða hver sem útfærslan yrði. Þetta er prinsippspurning sem mig langar að kasta hér fram, hvort það sé atriði sem skipti höfuðmáli eða hvort þetta snúist meira um það hver heildartalan væri sem tekin yrði inn á þessum grundvelli. Við þekkjum umræðuna sem snýr að því hvernig þetta skiptist á milli smærri, millistórra og stórra útgerða, hvernig þetta skiptist á milli útgerðarflokka, uppsjávarfiskur, bolfiskur og annað, og ég held því að það yrði til bóta ef hægt væri að ná utan um það strax í byrjun, hvort hægt sé að víkja frá þessu prinsippi til að ná einhverri sátt um nýja útfærslu.