152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[10:57]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hafði óskað eftir því að hæstv. utanríkis- og þróunarmálaráðherra myndi mæta og vonast ég til að fá svör frá ráðherra þrátt fyrir að hún hafi ekki séð sér fært að mæta hér. Í seinni ræðu minni við 1. umr. um fjárlög 2022 langar mig að fjalla um þróunaraðstoð, en það er mál sem snertir mig mjög náið þar sem ég hef unnið á því sviði um áratugaskeið. Í þessari viku gaf samhæfingarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna út skýrslu um hvernig hlutirnir líta út fyrir næsta ár og sú skýrsla er mjög svört. Reiknað er með að aðstoða þurfi um 274 milljónir manna um allan heim, og hér erum við ekki að tala um þróunaraðstoð heldur neyðaraðstoð. 274 milljónir manna, það er hækkun um 39 milljónir á milli ára. Þörfin á fjármagni, ekki til þróunaraðstoðar heldur neyðaraðstoðar, er talin munu aukast úr 31 milljarði bandaríkjadollara í 41 milljarð bandaríkjadollara. Hvað er það sem orsakar þetta? Jú, loftslagsvandinn skapar aukna þurrka, flóð og sterkari fellibylji, sér í lagi í kringum miðbaug, en stríðsátök dragast líka á langinn eða hafa jafnvel sprottið upp nú á undanförnum mánuðum í sumum ríkjum. Nægir þar að nefna lönd eins og Eþíópíu, Afganistan og Mjanmar. Talið er að um 1% mannkyns sé á hrakhólum og hungursneyð vofir yfir 44 milljónum manna í yfir 43 löndum. Þarna eru konur og börn í miklum meiri hluta.

Þegar ég byrjaði að lesa fjárlagafrumvarpið var ég mjög ánægður þegar ég sá að hækka átti hlutfall af vergri landsframleiðslu sem Ísland mun leggja til þróunarmála úr 0,32% fyrir árið 2021 í 0,35% fyrir árið 2022. Fyrir hv. alþingismenn sem ekki hafa verið á kafi í þessum geira eins og ég má benda á að það hlutfall sem Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, leggur til að ríkar þjóðir leggi til þróunaraðstoðar sé 0,7% af vergri landsframleiðslu. Það eru því að sjálfsögðu frábærar fréttir að við Íslendingar séum komin hálfa leið að því markmiði. Þarna erum við Íslendingar enn miklir eftirbátar Norðurlanda og reyndar flestra annarra ríkja Vestur-Evrópu. Þessi 0,03% hækkun á milli ára samsvarar 3,4 milljarða kr. hækkun á föstu verðlagi. Frábærar fréttir ef þær væru í raun réttar. Það kom nefnilega í ljós þegar betur var rýnt í gögnin, og sér í lagi í smáa letrið, að 3,3 milljarðar af þessari aukningu eru í raun bókhaldsbrella. Þróunarsamvinnunefndin innan efnahags- og framfarastofnunarinnar lét nefnilega undan þrýstingi þjóða eins og Bretlands og annarra landa þar sem íhaldsmenn eru við stjórnvölinn, og leyfði þjóðum að skilgreina kostnað við móttöku og brottvísun hælisleitanda sem þróunarsamvinnu. Ríkisstjórn Íslands nýtti sér að sjálfsögðu þetta tækifæri til að láta hlutina líta vel út á pappír, en það eru stór mistök sem byggja á skammsýni. Þau okkar sem komið hafa til þeirra landa sem fólk er að flýja, sem komið hefur á þau svæði þar sem hamfarir og stríð geisa og sem komið hefur í þær hörmulegu aðstæður þar sem fólk á flótta býr, jafnvel um áratugaskeið, eins og í flóttamannabúðunum í Dadaab í Norður-Keníu — í miðri eyðimörkinni hafa hundruð þúsunda búið, sum hver frá 1991 — þau okkar sem hafa upplifað þetta vita hversu mikilvæg þróunaraðstoðin og mannúðaraðstoðin er.

Í mínu fyrra starfi bauð ég hæstv. dómsmálaráðherra, og reyndar utanríkisráðherra líka, að koma í heimsókn í slíkar aðstæður svo hæstv. ráðherra gæti í raun áttað sig á því hvað verið væri að senda fólk út í. Það er von mín að nýr hæstv. þróunarmálaráðherra og hæstv. dómsmálaráðherra geri sér ferð til að fá dýpri skilning á því hvað það þýðir að senda fólk til baka í þessar aðstæður.

Að finna leið til að hækka það sem flokkað er sem útgjöld til þróunarmála með því að taka kostnað við móttöku og brottvísun hælisleitenda inn í þennan útgjaldaflokk eru stór mistök því að þarna erum við einungis að takast á við afleiðingarnar en ekki orsakirnar. Raunveruleg þróunaraðstoð felst nefnilega í því að bæta hag fólks þar sem það býr, bæta hag þess svo það þurfi ekki að flýja landið sem það er frá, bæta hag þess svo það geti tryggt börnum sínum og fjölskyldu mannsæmandi framtíð. Þegar þú gengur um fátækrahverfi stórborga eins og Naíróbí og sérð hvernig fólk býr, fólk sem lifir á innan við tveimur dollurum á dag, skilurðu af hverju fólk er að flýja. Þegar þú sérð fólk á stríðshrjáðum svæðum, eins og t.d. Afganistan þar sem konur hafa ekki lengur nein tækifæri til menntunar, skilurðu að fólk flýr að sjálfsögðu þangað sem þau tækifæri eru.

Á þetta, þ.e. á það að takast á við hlutina þar sem þeir eru, höfum við Íslendingar sett fókus okkar allt frá því að lög um aðstoð Íslands við þróunarlöndin voru sett árið 1971. Sem barn fékk ég að fylgjast með föður mínum heitnum, sem sat í stjórn þeirrar nefndar, vinna við að aðstoða Grænhöfðaeyjar við að verða sjálfstæð þjóð og nýta sjávarútveginn sem þar er. Við höfum verið dugleg að miðla af þekkingu okkar á sviði sjávarútvegs, landgræðslu, jarðhita og nú síðast jafnréttis. Starf Íslands og íslenskra hjálparsamtaka er mjög vel liðið hvar sem ég hef komið og ég hef spurt þiggjendur þeirrar aðstoðar hvernig hún sé í rauninni. Það var ánægjulegt að sjá á síðasta kjörtímabili aukningu í samstarfi við innlend hjálparsamtök í stað þess að einblínt væri á tvíhliða eða marghliða þróunaraðstoð og ég sakna þess svolítið í þessu fjárlagafrumvarpi að sjá ekki enn meiri aukningu á þessu.

Því langar mig að spyrja hæstv. þróunar- og utanríkismálaráðherra, sem hér er, kærar þakkir fyrir það, hver sýn hennar sem nýs ráðherra þessara mála er á hvernig við Íslendingar getum tekið okkar hlut af þessu erfiða verkefni.