152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:39]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég hef tamið mér að líta vonglöð fram á veginn, óttast ekki erfið verkefni og að takast á við þau og reyna að leysa þau. Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé hlutverk stjórnmálamanna að leysa vandamál en búa þau ekki til. Það gerist kannski of oft að þau eru búin til. Það er alveg ljóst að þetta risastóra mál strandaði hér í lok síðasta kjörtímabils með þeim hætti að það er ekki hægt að lesa annað úr stjórnarsáttmálanum en að þessi stjórn og ríkisstjórnarflokkarnir þrír hafa gefist upp á verkefninu. Mér sýnist það vera svona nokkurn veginn það sem stendur skrifað þar. Það má hins vegar ekki gerast. Það er þá hlutverk okkar hér í málefnalegri og öflugri stjórnarandstöðu og okkar sem tökum sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að sjá til þess að halda stjórnarskránni á dagskrá þingsins.

Ég er sammála hv. þingmanni um nálgun hennar á mikilvægi þess að hafa auðlindaákvæði í stjórnarskránni. Við vitum það að á meðan atvinnufrelsi nýtur verndar stjórnarskrárinnar, á meðan einkaeignarrétturinn nýtur verndar stjórnarskrárinnar en ekki auðlindir og náttúra landsins þá verður alltaf þetta misvægi þar á milli sem verður okkur til tjóns, að mínu áliti. Mikilvægasta verkefni okkar er að setja náttúruverndar- og umhverfisákvæði í stjórnarskrána og við megum ekki gefast upp á því þó svo að stjórnarsáttmálinn gefi okkur ekki mikla von.