152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:29]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég ætla ekki að vekja neinar væntingar hjá þingmanninum um að ég muni svara þannig að hv. þingmaður verði ánægður en hins vegar er þessi málaflokkur þannig vaxinn eins og flestir málaflokkar, alla vega mjög margir, að hægt er að nýta alla fjármuni en síðan á einhverjum tímapunkti þá afgreiða menn fjárlög og það þarf að nýta þá fjármuni eins vel og hægt er. Ég hef gegnt embætti ráðherra í þremur ráðuneytum, þetta er þriðja, og ég held að ég hafi alltaf verið skammaður fyrir að biðja ekki um meiri peninga. Í mínum huga snýst þetta ekkert um það og það er svo sannarlega ekki þannig að sá sem hér stendur ákveði hver niðurstaðan er í fjárlögum fyrir einstaka málaflokka. Það er eitthvað sem menn vinna samkvæmt bestu getu og það er aldrei þannig að allir séu ánægðir, allra síst ráðherrarnir sem fara með hvern málaflokk fyrir sig. En hins vegar liggur alveg fyrir hver markmiðin eru. Þau eru mjög metnaðarfull. Við þurfum að ná þeim. Það er einarður vilji þessarar ríkisstjórnar að ná þessum markmiðum og frá því verður ekki hvikað.