152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:17]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Aftur þakka ég andsvarið. Til að klára umræðuna um umhverfismálin þá er það eiginlega framtíðarsýn mín að umhverfismálin verði ekki einangruð í einhverju sílói heldur hríslist þau yfir öll mál. Að við náum því einhvern veginn að öll mál verði umhverfismál. Við höfum að mörgu leyti náð að nálgast jafnréttismálin í samfélagi okkar þannig. Ég myndi vilja sjá það gerast að hér verði ekki gerðar skipulagsbreytingar, hér verði ekki búin til menntastefna, hér verði ekki unnin heilbrigðisstefna eða samgöngustefna án þess að allt sé rýnt út frá umhverfismálum. Það hlýtur að verða næsta skref, við erum bara komin þangað. Það er það sem ég vildi segja. Það er kannski einhver stærri framtíðarsýn að það sé ekki þörf fyrir einhverja sérstaka átaksnálgun í þessu máli, að þetta verði orðið okkur svo í blóð borið.

En varðandi þessa umræðu hérna og þessi vinnubrögð þá helgast þetta af því að ríkisstjórn sem setið hefur núna í heilt kjörtímabil stóðst ekki freistinguna að sleppa því að færa okkur aftur til vorkosninga. Þar með verður til pressa sem gerir það að verkum að við erum komin í, ég myndi segja ógöngur með að vinna þetta mál almennilega vegna þess að við bætist síðan að einhverra hluta vegna þurftu formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja þetta skjól sem kosningaskandallinn í Norðvesturkjördæmi bauð upp á. Nú mæta þeir aftur tveimur mánuðum eftir kosningar með hálfunninn stjórnarsáttmála og hroðvirknislega unnið frumvarp.

Ég sé ljósan punkt í þessu: Hér eru fjölmargir nýir þingmenn með margs konar reynslu að baki sem hafa mikið til málanna að leggja og hafa nýtt þennan tíma mjög vel í umræðu og að kynna sér ganginn hér. Nú ber ég ekki ábyrgð á samstöðu stjórnarflokka en hef eitthvað til málanna að leggja í samstöðu stjórnarandstöðuflokka og hún hefur styrkst hér í umræðunni og það er vel. Það verður ekki vanþörf á. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)