152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

leiðrétting á kjörum lífeyrisþega.

[15:25]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir akkúrat ekkert svar, enda bjóst ég nú svo sem ekki við miklu. Ég spurði einfaldlega hvort það ætti að hjálpa þessu fólki núna fyrir jólin. Og það er algerlega verið að leggja mér orð í munn þegar ég hér tala um handónýtt tryggingastofnunarkerfi, ef hæstv. forsætisráðherra hefur tekið það þannig að mér finnist vera allt í lagi með kerfið í heild sinni. Það er alls ekki svo. Ég er ekki að tala um þetta 1%, þennan aumingjaskap sem á að klína á þau, sem gerir kjarabilið enn gleiðara nú eftir áramót. Ég er ekki að tala um það, hæstv. forsætisráðherra. Ég er að tala um jólin sem verða hér eftir um hálfan mánuð. Ég er að tala um þann tíma, aðfangadag eftir 12 daga. Ég er að tala um hvort fátækt fólk og öryrkjar geti keypt sér eitthvað annað og gert eitthvað annað en halda áfram að elda hafragraut og vera með hrísgrjónagraut í matinn. Ég er að tala um hvort hægt sé að stíga niður á jörðina til þeirra sem hafa það bágt, og líta aðeins út fyrir eigin velferð og eigin velsæld og eigið peningaveski og koma til móts við fólkið okkar sem er að biðja um hjálp núna. Mér þætti vænt um að hæstv. forsætisráðherra svaraði spurningunni sem ég er að spyrja um núna en ekki eftir áramót eða eins og þetta var í gær. Ég er að tala um núna.