152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

loftferðir.

154. mál
[16:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég varð svolítið sorgmædd hér úti í salnum að hlusta á hv. þingmann flytja þessa ræðu. Það var ekki út af honum heldur innihaldi þess sem hann sagði. Hann dró upp hryggðarmynd. Hann dró upp, að mínu mati, ákveðna hryggðarmynd af umgengni ríkisstjórnar við vald sitt, umgengni ríkisstjórnar við stjórnarskrána, umgengni ríkisstjórnar við löggjafarvaldið. Öll þessi atburðarás, sem hv. þingmaður lýsti svo vel í ræðu sinni, kveikir á öllum varúðarbjöllum, hvað það varðar hvort verið sé að taka tillit til eðlilegra og lögmætra sjónarmiða sem koma fram hér á þingi og sem þarf nauðsynlega að setja fram þegar krísutímar eru notaðir til að þvinga í gegn lög, tilmæli, til að hægt sé að beita valdi, stundum með geðþótta, stundum með lögmæt sjónarmið í huga. Það er þarna sem við verðum að hafa varann á þegar kemur að þessari ríkisstjórn. Hún hefur brugðist ítrekað þegar kemur að löggjafarvaldinu og samskiptum við það og í því hvernig höndla á ýmis krísumál sem við þurfum að taka á. Við studdum ríkisstjórnina í mörgum tilvikum mjög vel en við vorum líka, nákvæmlega í þessu máli, með neyðarhemilinn í gangi og þurftum að taka í hann, virðist vera, samkvæmt því sem hv. þingmaður segir, sem hefur kynnt sér málið mjög vel, þegar stjórnarflokkarnir leyfðu sér að setja fram mál sem fór svo gjörsamlega í berhögg við stjórnarskrána.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Bindur hann vonir við að þetta mál lagist nú í meðförum þingsins? Getum við lagað það, gert það betra? Bindur hann vonir við að þessi vinnubrögð verði betri á nýju ári?