152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

loftferðir.

154. mál
[16:55]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nú yfirleitt vongóður maður en ég bind ekki miklar vonir við að vinnubrögðin batni mikið að þessu leyti af því það voru svo mörg tækifæri til þess á síðasta vetri sem ekki voru nýtt. Og varðandi það að ekki hafi verið hlustað á varnaðarorð okkar í stjórnarandstöðunni þá tvo mánuði sem við fjölluðum um málið er líka ágætt að rifja eftirfarandi upp: Frumvarp umhverfis- og samgöngunefndar er lagt fram 18. mars vegna þess að það liggur lífið á en 18. febrúar var minnisblað lagt fyrir ríkisstjórn til forsætis-, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, heilbrigðis- og dómsmálaráðherra frá samnefndum ráðuneytum þar sem álitaefni voru dregin upp. Mánuði áður en málið kemur fyrir þingið er dregið upp að þessi leið geti gengið gegn mannréttindum einstaklinga. Við vorum ekkert að finna upp á þessu. Fólkið þeirra í ráðuneytunum benti á þetta áður en málið kom fyrir okkar sjónir.

Hv. þingmaður sagði að ég hefði teiknað upp hryggðarmynd af þinglegri meðferð þessa máls í vor. Það er bara það eina sem hægt er að kalla þetta. Þetta er skólabókardæmi um það hvernig framkvæmdarvaldið á ekki að umgangast löggjafarvaldið og þetta er skólabókardæmi um það hvernig við á Alþingi þurfum að forðast það að vera meðvirk með fúski ráðuneytanna. Þar verðum við að segja stopp og það er það sem þarf að breytast.