152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum.

151. mál
[17:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er til margs að líta þegar horft er til þess hvar menn eru á þessari vegferð í stjórnkerfinu almennt. Þetta á ekki eingöngu við um dómsmálaráðuneytið heldur á það við um stjórnsýsluna í heild. Eins og ég fór inn á áðan birtist þetta okkur orðið í auknum mæli í okkar dagsdaglega lífi. Í ráðuneytinu er m.a. verið að vinna að því að koma meðferð dómsmála í varanlegan stafrænan búning að eins miklu marki og unnt er að gera það, greina réttarfarslöggjöfina með heildstæðum hætti og ekki síður að útfæra þær tæknilausnir sem koma í staðinn. Við erum til að mynda nýbúin að opna réttarvörslugátt, hún var opnuð bara núna í þessari viku, þar sem þolendur geta fylgst með sínum málum rafrænt. Þetta er að gerast myndi ég segja bara eiginlega öllum sviðum þar sem er möguleiki að koma því við. Það tekur auðvitað tíma að innleiða slíkar grundvallarbreytingar og það mun taka okkur tíma að útbúa síðan um það heildarlöggjöf hvernig við höldum utan um þessar heimildir.