152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[21:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er alveg áhugavert frumvarp. Það er dálítið merkilegt að um leið og einhver erlendur aðili kemur og kaupir sig inn í grunninnviði samskipta þá er svo mikið vandamál með þjóðaröryggi. Vandamálið var náttúrlega til staðar áður. Innlendir aðilar geta valdið vandamálum þegar kemur að þjóðaröryggi.

Mér finnst það sem fjallar um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri í III. kafla þessa frumvarps sérstaklega áhugavert. Þetta eru svo sem önnur lög, frá 1991 upprunalega, en ég veit ekki hversu viðeigandi þau eru lengur af því að að sjálfsögðu eiga þessi öryggisatriði að vera skýr, hvort um er að ræða erlendan aðila eða innlendan þegar allt kemur til alls. Öryggissjónarmiðin hljóta að vera jafn veigamikil. Það sem mér finnst athyglisvert við að skoða frumvarpið frá stærra sjónarhorni er að við erum einmitt ekki með sambærilegt fyrirkomulag á eignarhaldi í grunninnviðum hjá okkur. Við erum tiltölulega nýbúin að fara í gegnum breytingar á lögum um póstþjónustu þar sem við erum vissulega með einkaeigu, einkaaðilar geta sinnt póstþjónustu. En þar er möguleiki á því að hið opinbera geti skilgreint alþjónustukvöð til þeirra svæða þar sem ekki eru taldar vera markaðsforsendur fyrir rekstri.

Svipað má finna varðandi orkuflutninga. Þó að við séum með einn aðila, Landsnet, sem sér um þá er það líka varðandi framleiðsluna á orku. Það er hægt að setja á alþjónustukvöð um það að orkan skuli fara á þá staði þar sem er skortur á henni. Í vegaframkvæmdum erum við að mestu leyti með opinbera eign en einnig eru nokkur verkefni sem eru sett í sam… — Hvert er orðið sem Framsókn notar alltaf um þetta? (LínS: Samvinnu.) Samvinnu, rétt, samvinnuleiðin, PPP. Orðið er ekki það algengt að maður noti það en það er þarna og getur svo sem virkað. Það virkaði ágætlega fyrir Hvalfjarðargöngin og fyrir stærri verkefni. Það eru til skýrslur um það hvenær slík verkefni eru arðbær fyrir bæði einkaaðila og hið opinbera, ekki bara annaðhvort eða. Almennt séð eru verkefni í vegaframkvæmdum arðbærari, hagkvæmari fyrir hið opinbera því að hið opinbera sér um þau verkefni en í stærri framkvæmdum getur verið arður af því fyrir bæði einkaaðila og opinberra aðila þar sem um er að ræða flýtingu á arðbærri fjárfestingu sem deilist þá á einhverjum tíma til allra aðila, náttúrlega líka til neytenda þegar allt kemur til alls.

Hérna erum við með þessa grunninnviði, fjarskipti, þar sem við erum með hluta þeirra samskiptainnviða í opinberri eigu, eigu sveitarfélaga, Gagnaveitu Reykjavíkur, en annars í eigu einkaaðila. Mér finnst áhugavert að þetta sé ekki samræmdara regluverk á einhvern hátt, að þegar við erum að glíma við eitthvað sem við myndum flokka sem grunninnviði þá sé ekki bara hægt að ganga beint að ákveðnu reglu- og fyrirkomulagi um slíka innviði. Það má kannski vísa til þess hversu skammsýn við erum í rauninni í því að setja upp almennari og gegnheilli löggjöf einmitt í þessu frumvarpi þar sem þjóðaröryggi var aldrei vandamál fyrr en erlendur aðili kaupir í samskiptaþjónustunni, grunninnviðum samskipta. Þetta vandamál var augljóslega til staðar áður.

Í 4. gr. frumvarpsins er áhugaverður b-liður. Þar stendur að á eftir 5. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:

„Vegna hlutverks Fjarskiptastofu er varðar almannahagsmuni og þjóðaröryggi er stofnuninni heimilt að krefjast upplýsinga um eigendur, keðju eigenda og þá aðila sem raunverulega fara með atkvæðisrétt, stjórnarmenn, framkvæmdastjóra, eftirlits- og stjórnkerfi innan fjarskiptafyrirtækis.“

Ég hélt að þetta ættu að vera lög nú þegar um keðjuábyrgð og þess háttar en það getur verið að það eigi ekki eins nákvæmlega við hérna og það þurfi einhvern veginn að tvítaka það eða eitthvað því um líkt. En auðvitað á aðgengi að svona upplýsingum bara almennt að eiga við um öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi. Gagnsæi um raunverulega eigendur er algjört lykilatriði þegar fólk er að ákveða við hverja það vill versla. Ætlar það að versla við fyrirtæki eða aðila sem tengjast fyrirtækjum sem eru þekkt fyrir að vera með kennitöluflakk? Nei, ég ætla að velja einhvern annan. Það eru tveir sem bjóða í verkið hjá mér og ég ætla frekar að velja þann sem er ekki þekktur fyrir að vera með kennitöluflakk og ætlar bara að skilja allt eftir hérna þegar það er búið borga, eða eitthvað því um líkt. Mér finnst þetta því áhugaverð grein sem kemur þarna inn. Kannski er þetta tvítekning. Kannski er bara verið að ítreka einhverja ákveðna heimild sem ætti alla jafna að eiga við alls staðar.

En þá kem ég aftur í þennan ramma, grundvöll löggjafar á Íslandi, sem virðist vera rosalega rysjóttur, ekki heilsteyptur alla vega. Það er ekki hægt að ganga að neinu vísu þegar kemur að íslenskum lögum af því að maður finnur jafnvel eitthvert annað fyrirkomulag þegar maður kemur í næsta lagabálk, t.d. um sambærilegt fyrirkomulag grunninnviða. Við erum búin að setja sér fyrirkomulag um póst, það er aðeins öðruvísi fyrirkomulag um orkuflutning og svo er hérna það þriðja. Þurfum við ekki að skella þjóðaröryggi í póstinn t.d.? Eru það einhverjar pælingar? Þetta er áhugavert.

Það er eitt sem ég velti fyrir mér. Ég finn ekki nægilega nákvæmlega í þessu frumvarpi, sem hefur verið vakin athygli á fyrr í umræðunum, af því að það er verið að setja í reglugerð að Fjarskiptastofa geti gert ýmsar kröfur, hvort það sé hægt að setja þannig kröfur að búnaður frá ákveðnum framleiðanda sé einfaldlega ekki tiltækur. Það sé bara: Núna er þessi búnaður, allur búnaður frá tilteknum framleiðanda, talinn óöruggur. Punktur. Ég er ekki alveg viss hvort hægt sé að gera það samkvæmt þessum lögum. Þetta er ekkert rosalega nákvæmlega orðað, eins og svo margt annað. Þannig að ég veit ekki hvort það væri hægt að túlka það einhvern veginn út frá þessum mismunandi ákvæðum sem koma í 1. gr. að Fjarskiptastofa og síðan ráðherra gæti sett þá reglugerð eða kröfur um að búnaður ákveðins framleiðenda væri einfaldlega ónothæfur, bara einn, tveir og þrír. Það er svona vísir að því í 5. mgr. 1. gr. þar sem segir að Fjarskiptastofa geti farið fram á að fjarskiptafyrirtæki framkvæmi sértækt áhættumat á einstökum rekstrar- og kerfisþáttum fjarskiptaneta. Þetta er pínu óljóst því að það er talað sérstaklega um það í 2. gr. að í reglugerðinni sé hægt að kveða á um að kerfi og búnaður í fjarskiptanetum sem teljast mikilvæg með tilliti til almannahagsmuna og þjóðaröryggis og nauðsynleg fyrir virkni á stjórnun fjarskiptaneta skuli staðsett í íslenskri lögsögu. Það er aðeins annað en að þetta vörumerki sem slíkt sé ekki boðlegt, bara að það skuli vera staðsett í íslenskri lögsögu. Það er alla vega ekki sá hluti sem myndi gefa heimild til þess. En hvort sérstakt áhættumat eða skilyrði ákveðins áhættumats gætu einfaldlega flokkað ákveðnar tegundir af búnaði sem áhættu, punktur — það er óljóst alla vega.

Að lokum er það þá 6. gr. þar sem er talað um að lög þessi gildi einnig um erlendar fjárfestingar sem áttu sér stað fyrir gildistöku þeirra ef frestur ráðherra til að stöðva þær samkvæmt 12. gr. laga um fjárfestingu erlendra aðila í ríkisrekstri er ekki útrunninn við birtingu laga þessara í A-deild Stjórnartíðinda. Ég veit ekki hvort þetta stenst. Það er þessi grunnregla um að ekki megi setja afturvirk lög ef þau minnka í rauninni réttindi einhverra og þarna er tvímælalaust búið að gera ákveðinn samning, ákveðin kaup hafa farið fram. Ráðherra hefur enn þá heimild til að segja nei en ef þessi lög hefðu gilt áður en til kaupanna kom þá hefðu skilmálar þeirra kaupa mögulega verið allt aðrir. Það hefur að vissu leyti áhrif á réttindi kaupandans. Þá veit ég ekki hvort 6. gr. stenst grundvallarregluna um afturvirkni löggjafar. Það er eitthvað sem nefndin þarf að skoða virkilega vel því að við könnumst náttúrlega við nýleg dæmi um afturvirka löggjöf sem ríkið var gert afturreka með. Ef þetta myndi ekki standast, það yrðu sett þarna lög sem virkuðu afturvirkt á þessi kaup, hver veit hvaða áhrif það hefði á þá samninga? Bara upp á að fyrirtækin sæju sér ekki leik á borði til að segja: Hérna er eitthvað sem við höfum ekki áhuga á og verið er að brjóta á réttindum okkar sama hvað þannig að við ætlum að leita réttar okkar hvað það varðar. Ég veit ekki á hvers konar forsendum þeir myndu vísa til einhverra skaðabóta eða einhvers því um líks. Mér dettur ekkert í hug en það eru örugglega einhverjir klárari en ég í því að láta sér detta svoleiðis í hug. En ég hef samt áhyggjur af því að þarna er klárt dæmi um afturvirkni laga og ég held að við þurfum að skoða gríðarlega vel hvort það sé eitthvert áhættuatriði í þessu frumvarpi.

En sökum þess að það er stuttur tími þá er ég ekkert rosalega vongóður um að það verði farið neitt of vel yfir það eða að umsagnir, skýrar umsagnir um það, fái tíma til að berast. Ég get því ekki annað en hvatt hv. umhverfis- og samgöngunefnd til dáða í því verkefni sem er verið að setja nefndinni fyrir. Það er enginn öfundsverður af þessu verkefni og þar er ríkisstjórninni síst að þakka.