152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[00:19]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér komu tveir hæstv. ráðherrar áðan og hreyktu sér af því hversu duglegir þeir hefðu verið í gamla daga. Ég þykist viss um að ekki hafi nema helmingurinn af þeim þurft að stunda mikla erfiðisvinnu í gegnum tíðina umfram okkur hin, en það er nú önnur saga. Þetta snýst auðvitað fyrst og fremst um að við fáum að fjalla um málið og að nefndarálitin verði rædd og flutt í dagsbirtu en ekki í skjóli nætur, ekki um það að við getum ekki unnið. Við verðum líka að ræða aðeins hver hefur umboð til að stýra fundum. Við höfum alveg ágætisreynslu af fjarfundabúnaði síðasta árið í Covid. Ég held að það hafi hins vegar aldrei verið hugmyndin að þinginu yrði fjarstýrt úr kjallaraherbergi vestur í bæ, í kílómetrafjarlægð.

Frú forseti. Við verðum einfaldlega að fá að vita: Er frú forseti með fullt umboð hér vegna þess að forseti og 1. varaforseti eru veikir og í einangrun? Eða er þetta einhvern veginn öðruvísi? Við þurfum að fá botn í það til að geta átt þessar samræður.