152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

uppbygging geðdeilda.

14. mál
[16:36]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Húsbúnaður úr sér genginn, mygla í veggjum, snjóar inn á sjúklinga og starfsfólk, fólk þarf að deila herbergi með ókunnugum, allt að sex saman sem deila sturtu og salerni. Svona lýsa tveir geðlæknar, Halldóra Jónsdóttir og Lára Björgvinsdóttir, ástandinu á geðdeildum Landspítala í grein sem birtist í Fréttablaðinu í fyrra. Við skulum bara gefa þeim orðið, með leyfi forseta:

„Einnig að það er ekki lengur pláss fyrir alla þá starfsemi sem geðþjónustan rúmar. Engin áætlun er til um endurnýjun á húsakosti geðþjónustu Landspítala. Húsakosturinn eins og hann leggur sig hefur ekki fengið viðeigandi viðhald í gegnum tíðina og því fylgir ýmiss konar vandi, til dæmis snjóar inn á sjúklinga og starfsfólk í vetrarveðrum og mygla hefur greinst í sumum húsanna, nokkuð sem seint telst heilsubætandi. Þjónusta við sjúklinga hefur liðið fyrir þetta ástand. Aðstaðan í húsunum stenst engan veginn nútímakröfur. Deildirnar eru þröngar og hafa fá önnur viðverurými en herbergi sjúklinga.“

Og Halldóra og Lára halda áfram:

„Á hverju ári leggjast að meðaltali 1.200 einstaklingar inn á geðdeildir Landspítala og sumir hverjir oftar en einu sinni. Flestir þurfa þeir að deila herbergi með ókunnugu fólki. Það finnst mörgum skiljanlega erfitt og treysta sér jafnvel ekki til þess. Deila þarf sturtu og salerni með fleira fólki (oft 4--6) með tilheyrandi smithættu en sjúkrahússýkingar eru alvarlegt vandamál á öllum spítalanum, líka á geðdeildum. Í geðdeildarhúsinu við Hringbraut er aðeins eitt sjúklingaherbergi með sér baðherbergi. Á aðeins einni deild í húsinu fá allir inniliggjandi einbýli, en þar deila tveir salerni og sturtu. Á endurhæfingargeðdeildum á Kleppi þar sem fólk dvelur að jafnaði lengur eru vissulega fleiri einbýli en þar deila allir inniliggjandi sjúklingar baðherbergi með öðrum. Aðstaða til afþreyingar er af skornum skammti, helst sjónvarp, hugsanlega handavinna eða spil. Aðstaða til útiveru er enn bágbornari og í sumum tilfellum er ekki hægt að hleypa fólki út svo dögum skiptir þar sem ekki eru örugg svæði til útiveru. Hefur geðdeildin fengið ákúrur vegna þess frá pyntinganefnd Evrópuráðsins, sem telur þetta réttilega brot á mannréttindum. Við fullyrðum bæði út frá reynslu og rannsóknum að þrengri geðdeildir þar sem ekki er beint aðgengi að garði/útisvæði auka líkur á spennu, óróleika og ofbeldisatvikum og um leið því að sjúklingar séu í kjölfarið beittir þvingunum.“ — Þvingunum, eins og hv. þingmenn Helga Vala Helgadóttir og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir töluðu um hér áðan, sem eru afleiðingin af þeim ömurlegu skilyrðum sem sjúklingum og starfsfólki eru búin.

Og svo ég haldi áfram:

„Þá má benda á að geðdeildin við Hringbraut er umkringd bílastæðum og umferðarþungum götum. Það má í raun segja að húsnæði geðdeildar við Hringbraut standi á bílastæði sjúkrahússins.“

Frú forseti. Þarf einhver að velkjast í vafa um það eftir þennan lestur, eftir þessar lýsingar geðlæknanna tveggja, að úrbóta er þörf hvað varðar húsnæðismál geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi? Efast einhver um það? Það getur ekki verið. Geðheilbrigðisþjónustan hefur einfaldlega mætt afgangi hjá síðustu ríkisstjórnum. Geðlæknum hefur fækkað á þeim vettvangi þar sem veikustu sjúklingunum er sinnt, biðtími eftir þjónustu hefur lengst og lengst og lengst undanfarin ár og þannig er það bara.

Samkvæmt upplýsingum sem ég aflaði frá barna- og unglingageðdeild Landspítala við fjárlagaumræðuna í desember voru 133 börn á biðlista hjá BUGL, 133 börn, og mörg þeirra búin að bíða mánuðum saman eftir greiningu, þjónustu og aðstoð. Meðalbiðtími hjá átröskunarteymi Landspítalans er 45 vikur samkvæmt upplýsingum sem bárust Alþingi frá heilbrigðisráðuneytinu í fyrra. 45 vikna meðalbiðtími hjá fólki sem þjáist af átröskun. Hvernig getur það talist boðleg staða í samfélagi sem við viljum kalla velferðarsamfélag?

Við í Samfylkingunni höfum árum saman kallað eftir afgerandi aðgerðum í geðheilbrigðismálum. Við köllum líka eftir skýrri sýn til framtíðar, ekki bara einstaka átaksverkefnum af og til. Sú þingsályktunartillaga sem við erum að ræða hér í dag er liður í því. Hún snýst um að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við að tryggja bætta aðstöðu, bæði fyrir geðsvið Landspítala og geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri, að skipaður verði starfshópur fagfólks og hagsmunaaðila, þar með talið notenda og aðstandenda þeirra, sem annist frumathugun, þarfagreiningu og húsrýmisáætlun vegna verksins, beri saman ólíka kosti og leggi fram tillögur að staðsetningu og stærð. Þingmálið var lagt fram á síðasta þingi fyrir u.þ.b. ári, ef ég man rétt, og snýst um að byggt verði upp sómasamlegt húsnæði fyrir þessa bráðnauðsynlegu grunnþjónustu. Markmiðið er að skapa heilnæmt og gott umhverfi fyrir fólk sem glímir við geðrænan vanda, umhverfi sem samræmist nútímakröfum um mannúðlega þjónustu.

Þingsályktunartillagan hefur fengið mjög jákvæðar undirtektir, t.d. frá Læknafélagi Íslands. Í umsögn þess segir, með leyfi forseta:

„LÍ styður þessa tillögu og bendir í því sambandi á umsögn Landspítala frá 11. mars sl. þar sem fram kemur að það húsnæði sem geðdeildir Landspítala hafa nú til umráða er barn síns tíma. Mikilvægt er að vandað verði til þessarar vinnu og því augljóst að sá tímarammi, sem starfshópnum, sem lagt er til að skipaður verði, er gefinn í tillögunni er óraunhæfur.“ — Læknafélag Íslands kallaði eftir lengri tíma og við því var brugðist.

Landspítalinn sendi líka inn umsögn og þar segir, með leyfi forseta:

„Húsnæði nútímageðþjónustu er í rúmgóðu, björtu og fallegu umhverfi sem skapar vellíðan fyrir notendur, aðstandendur og starfsfólk. Húsnæði þarf að vera öruggt og þannig útbúið að hægt sé að sinna sóttvörnum með viðunandi hætti (m.a. sér baðherbergi og loftræsting). Öll sjúkrarými þurfa að vera einbýli með sér baðherbergi og sturtu. Allar legudeildir þurfa að vera á jarðhæð með beinu aðgengi út í garð eða útivistarsvæði. Góð aðstaða þarf að vera til að taka á móti aðstandendum, til að sinna virkni og heilsusamlegum lífsstíl.“

Þá fögnuðu landssamtökin Geðhjálp tillögu okkar og skiluðu vandaðri og nokkuð ítarlegri umsögn um málið. Þar er t.d. bent á að geðdeildir Landspítalans eru staðsettar í byggingu sem notendur, aðstandendur og starfsfólk hafa gagnrýnt allt frá því hún var tekin í gagnið árið 1979. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Notendur voru ekki hafðir með í ráðum á neinum stigum framkvæmdarinnar. Útivistaraðstaða er nær engin og hönnun innanhúss óhentug, köld og fráhrindandi. Það voru mikil vonbrigði að geðdeildirnar voru ekki teknar með við uppbyggingu nýs Landspítala.“ — Undir það get ég tekið.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili. Einhverra hluta vegna var þetta mikilvæga mál ekki samþykkt á síðasta þingi. Ég vona innilega að þingheimur geti nú sameinast um þetta. Samþykkt þessarar þingsályktunartillögu yrði eitt mikilvægt skref af þeim mörgu stóru skrefum sem verður að stíga strax í átt að sómasamlegri geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.