152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

starf Seðlabanka Íslands eftir gildistöku laga nr. 92/2019.

162. mál
[14:05]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Lögin um Seðlabanka Íslands voru samþykkt hér á Alþingi í júní 2019, eins og komið hefur fram. Lögin byggðu á ítarlegum tillögum starfshóps um endurmat peningastefnunnar sem kynntar voru í júní 2018. Fyrir þann tíma hafði farið fram gríðarlega mikil vinna, ýmsar skýrslur verið skrifaðar og erlendir sérfræðingar, innlendir sem erlendir, unnið að þeim. Það var síðan ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins sem tók ákvörðun í október 2018 um að hefja endurskoðun á lagaumhverfi eða lagaumgjörð peningastefnu þjóðhagsvarúðar- og fjármálaeftirlits. Í kjölfarið skipaði forsætisráðherra verkefnisstjórn til að hafa yfirumsjón með endurskoðuninni.

Ég tók þátt í þeirri vinnu sem átti sér stað hér á þingi á vegum efnahags- og viðskiptanefndar sem fékk frumvarpið til umfjöllunar. Ég hygg að mér sé óhætt að fullyrða að sjaldan, ef nokkurn tímann, hafi mál verið jafn vel undirbúið til þingsins eins og það frumvarp sem lagt var fyrir þingið af forsætisráðherra. Efnahags- og viðskiptanefnd gerði sannarlega margar breytingar á frumvarpinu í samráði við Seðlabankann en sérstaklega forsætisráðherra og fjármálaráðherra og tók tillit til ýmissa ábendinga í umsögnum hagaðila. Í vinnu nefndarmanna var lögð rík áhersla á að auka enn frekar gegnsæi í störfum Seðlabankans. Meðal annars var lagt til að allar nefndir Seðlabankans, ekki bara peningastefnunefnd heldur fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd, kæmu fyrir þingnefndina með reglubundnum hætti á opnum fundum. Auk þess var lagt til að sú skýrsla sem hér liggur fyrir, þessi endurskoðun, yrði gerð. Við 3. umr. um frumvarpið tók meiri hluti nefndarinnar höndum saman við minni hlutann, sem ég hygg að ekki séu mörg fordæmi fyrir, og tók undir mjög margar breytingartillögur sem þá voru lagðar fram. Við getum svo velt því fyrir okkur hvort allar þær breytingartillögur hafi verið skynsamlegar, það er annað mál. En mér fannst þetta vinnulag nefndarinnar — auðvitað vorum við á endanum ekki sammála um þessa lagasetningu en við náðum þó saman í mörgum veigamiklum atriðum. Meiri hlutinn tók höndum saman við minni hlutann og ég held að breytingartillögurnar hafi verið í sex greinum.

Samþykkt laganna markaði tímamót. Þó að menn bendi réttilega á að ekki sé langur tími liðinn held ég að óhætt sé að fullyrða að vel hafi tekist til. Ég hygg að við getum öll verið ágætlega sátt við það hvernig til hefur tekist en um leið verðum við að átta okkur á því að það eru kannski einhverjar brotalamir sem við þurfum að huga að. Stærsta skrefið var auðvitað að öll þjóðhagsvarúð auk eindarvarúðar urðu á forræði einnar stofnunar. Öll varúðartæki og greiningar sem leiddu til ákvörðunar urðu skilvirkari og betri en nokkru sinni áður. Ég er sjálfur sannfærður um að reynslan af þessum nýju lögum sýni að það var rétt ákvörðun og skynsamleg að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. En eins og ég sagði áðan kunna að vera á því einhverjir ágallar sem við þurfum að sníða af. Í sjálfu sér var ekki við öðru að búast. Það var einmitt þess vegna sem efnahags- og viðskiptanefnd sameinaðist á sínum tíma um að setja inn ákvæði til bráðabirgða um lagalega skyldu um skipan þeirrar úttektarnefndar sem nú hefur skilað góðri skýrslu og þörfum ábendingum.

Ef hægt er að draga ályktun af niðurstöðu úttektarnefndarinnar hygg ég að það liggi fyrir að nauðsynlegt sé að endurskoða fyrirkomulag þegar kemur að fjármálaeftirlitsnefndinni, verksviði hennar. Ég hygg að það sé skynsamlegt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd að hefja undirbúning og umræðu um það og vinna sér í haginn. Mér þykir einsýnt að þegar skýrsla óháðrar úttektarnefndar, sem er nota bene lagaleg skylda á fimm ára fresti, liggur fyrir þurfi nefndin í framhaldi af því, líklegast þá í upphafi nýs árs eða á fyrri hluta nýs árs, að láta til sín taka í umfjöllun um frumvarp um breytingar á þeim ákvæðum laga Seðlabankans sem kunna að vera með einhverjum ágalla eða gætu verið á betri veg en við gengum frá.

Í þeirri skýrslu sem við fjöllum um hér kemur fram að skilgreina verði með fullnægjandi hætti hver af verkefnum Fjármálaeftirlitsins þurfi að fela sérstakri nefnd og hver þeirra tilheyri hefðbundinni stjórnsýslu innan Seðlabankans. Bent er á að núverandi fyrirkomulag um víðtækt starfssvið nefndarinnar sé óraunhæft og í raun er brugðist við því, er bent á, með víðtæku framsali frá nefndinni til varaseðlabankastjóra Fjármálaeftirlitsins. Það er skýr ábending úttektarnefndarinnar til löggjafans að hann skilgreini á gagnsæjan hátt verkefni nefndarinnar og stöðu varaseðlabankastjóra Fjármálaeftirlitsins. Einnig er bent á að viðfangsefni nefndarinnar, þ.e. fjármálaeftirlitsnefndar, séu af ólíkum toga, að stór hluti þeirra séu, eins og ég sagði áður, ákvarðanir í stjórnsýslumálum eftirlitsskyldra aðila.

Ég ætla hins vegar líka að leyfa mér að taka undir það með úttektarnefndinni að ef ekki verður farið í að gera breytingar á fjármálaeftirlitsnefndinni, og hugsanlega líka að skilgreina betur fjármálastöðugleikanefndina, færa verkefni til þar og skýra það betur, verði a.m.k. að gera þær breytingar að seðlabankastjóri gegni formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd eins og í hinum nefndunum tveimur, peningastefnunefnd og fjármálastöðugleikanefnd, eins og lagt var til í hinu upphaflega frumvarpi forsætisráðherra og ég tók þátt í að breyta. Það er alveg ljóst, og það er reynsla sem er alveg skýr á þessum tveimur árum — og ég hygg að við þurfum ekki fleiri en tvö ár til að sjá að mismunandi formennska býr til flækjustig og það gerir einnig hið margbrotna framsal valds. Og hin lagskipta stjórnsýsla sem búin er til í kringum eftirlitskerfi innan sömu stofnunar flækir þetta allt saman, eins og úttektarnefndin bendir á. Með leyfi forseta ætla ég að fá að vitna orðrétt í skýrsluna þar sem segir:

„Úttektarnefndin hefur áhyggjur af því að umgjörðin af hendi löggjafans um þessar ákvarðanir sé ekki eins og best verður á kosið. Málsmeðferðin, framsal valds og aðstaða nefndarmanna til að taka virkan þátt í ákvörðunum sem geta snúist um refsingar einstaklinga og fyrirtækja, gæti talist ófullnægjandi. Að hluta til hafa viðtöl úttektarnefndarinnar staðfest þessar áhyggjur.“

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan þótti mér einstaklega gaman, ef ég má segja það, og áhugavert að fá að taka þátt í þeirri miklu vinnu sem fór fram í efnahags- og viðskiptanefnd við afgreiðslu frumvarps hæstv. forsætisráðherra árið 2019. Af því að ég á ekki kost á því að sitja í efnahags- og viðskiptanefnd þá eiginlega dauðöfunda ég nefndina að fá að öllum líkindum að glíma við breytingarnar, kannski ekki jafn umfangsmiklar og áður, ég vona nú ekki, enda engin ástæða til. En kannski þarf innan árs að taka til við að sníða hugsanlega vankanta af, eða þá vankanta sem við erum sammála um að lagfæra. En ég hvet hins vegar hv. efnahags- og viðskiptanefnd til þess að óska eftir því að höfundar skýrslunnar komi á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir helstu niðurstöðum og að nefndin láti ekki þar við sitja heldur óski líka eftir að seðlabankastjóri og óháðir nefndarmenn komi fyrir nefndina og óháðir sérfræðingar sem við eigum sem betur fer marga. Ég fullyrði að ef menn standa þannig að verki verði menn vel nestaðir til að takast á við það verkefni að sníða af þá ágalla sem mér virðist að séu að koma í ljós. Við eigum auðvitað að hafa þor og burði til þess, þó að ekki séu liðin nema tvö ár.