Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 35. fundur,  8. feb. 2022.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[16:15]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir þessum áhuga hv. þingmanns á þessum málaflokki, annars vegar áhuga hans á fjarskiptum og hins vegar þjóðaröryggisþættinum og þetta eru auðvitað nátengd mál eins og hv. þingmaður kom inn á. Ég er honum einlæglega sammála um þetta stöðumat, hvar Ísland stendur í samanburði við aðrar þjóðir, og ég nefndi það líka, því að eins og ég segi þá hef ég tekið eftir þessum áhuga þingmannsins, að mér hefur fundist lítið gerast af hálfu ríkisstjórnarinnar síðan 2016. Það er alvarlegt að að sex árum liðnum hafi ekki meira gerst. Varðandi þjóðaröryggisvinkilinn, einmitt út af landfræðilegri legu og veðráttu, held ég að Íslendingar þekki það nú allra þjóða best og við berum virðingu fyrir náttúrunni og við höfum stundum ástæðu til að óttast hana, þá spyr ég: Hefði ekki farið vel á því að samgönguráðherra þáverandi hefði haft frumkvæði að því eða forsætisráðherra að fjalla um þetta mál t.d. í þjóðaröryggisráði, að þjóðaröryggisráðið væri virkjað með þeim hætti að það væri ekki kallað eftir samtali heldur að mál sem hefur ekki bara bein áhrif á heldur beinlínis varðar þjóðaröryggi væri afgreitt með þeim hætti að ríkisstjórnin a.m.k. leiddi samtalið? Við höfum þó þennan vettvang og ég held að hann gæti orðið sterkari með því að einfaldlega virkja hann betur.

Ég vil ljúka máli mínu á að segja að ég bind miklar vonir við það sem hv. þingmaður nefndi, annars vegar varðandi umsögn ríkislögreglustjóra og hins vegar Neyðarlínunnar, og að þessu verði gefinn góður gaumur þegar málið kemur hingað inn aftur. En ég myndi leggja það á borðið hvernig við virkjum þjóðaröryggisráð.