Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 35. fundur,  8. feb. 2022.

Fiskistofa.

35. mál
[17:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég styð þetta frumvarp heils hugar, niðurfellingu strandveiðigjalds. Um hvað erum við að fjalla eina ferðina enn? Jú, mismunun. Þess vegna hef ég kallað þessa ríkisstjórn mismununarríkisstjórnina, hún mismunar þegnum sínum. Þetta er gjald sem enginn annar borgar í fiskveiðum, skip og aðrar veiðar þar sem veiddar eru aðrar fisktegundir, bara þessi litlu strandveiðibátar, 50.000 kr. sérgjald fyrir þá. En á sama tíma erum við að heyra um metveiði, heimsmet í veiði loðnu, 3.448 tonn. Setjum það í samhengi við þetta mál, bátur sem veiðir þetta gífurlega magn af fiski og borgar ekki 50.000 kallinn, ef það væri í tonnum talið, hversu mikið ætti þessi bátur að vera að greiða? Eru það 500.000 kr., 5 milljónir eða 50 milljónir? Þessir litlu strandveiðibátar koma kannski með tonn að landi af besta hráefni sem hægt er að fá, langbesta hráefnið, og 90,4% af þessum afla fer beint á markað hér innan lands. Það er verið að setja ósanngjarnan skatt á þessar vistvænu veiðar.

Ég styð heils hugar frjálsar handfæraveiðar vegna þess að það eru langvistvænustu veiðarnar sem við getum stundað. Við fáum besta hráefnið þannig og við vitum það, við Íslendingar, vegna þess að við förum í fiskbúð og kaupum gæðahráefni. Það er því miður orðið allt of dýrt fyrir flesta sem eru á lægstu launum og bótum og hafa varla til hnífs og skeiðar. Það er ekki gerlegt þegar verðið er komið í um 3.000 kr. kílóið fyrir þessa einstaklinga sem eru að reyna að lifa af einhverjum 240.000 kr. á mánuði og borga 200.000 kr. leigu. Það segir sig sjálft að það er ekki mikið eftir fyrir þá sem deilist niður á mánuðinn og þeir þurfa eiginlega að lifa á 500 eða 600 kr. á dag. Það dugir skammt upp í það að fara út í búð og kaupa gæðafisk. En það er aftur á móti annað mál eins og er alltaf, það eru ekki allir jafnir fyrir lögum. Þarna er hreinlega verið að setja skatt á eina stétt sem er alveg stórfurðulegt vegna þess að þetta er svo lítil upphæð í sjálfu sér. Ef hún væri sett á allar skipaflotann þá held ég að myndi heyrast kvein. Ef gjaldið væri uppfært á öll skipin þá stæði það örugglega ekki lengi því að þá myndi kvótakórinn reka upp skaðræðisvein. En það er auðvitað í lagi að setja það á þessa litlu báta sem mega bara veiða 12 daga í mánuði og 48 daga á ári. Og eins og hefur komið fram, sem sýnir fáránleikann í þessu öllu, þá mega þeir bara veiða á ákveðnum dögum. Ekki eftir veðri. Nei. Þeir mega ekki fara eftir því sem sjómenn hafa gert í gegnum aldirnar, fara eftir veðri. Nei, þeir mega bara veiða á ákveðnum dögum sem sýnir annan fáránleika í meðferð á þessum strandveiðibátum. Ég segi bara: Burt með þetta gjald og sjáum sóma okkar í því að gera strandveiðar frjálsar.