Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

38. mál
[16:58]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Þetta er sannarlega ekki í fyrsta skipti sem við í Flokki fólksins mælum fyrir þessu frumvarpi en mikið væri nú ljúft ef það væri í það síðasta. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð (skerðingarlaus atvinnuþátttaka öryrkja). Með mér á frumvarpinu eru Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson og Guðmundur Ingi Kristinsson, gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins.

Í I. kafla, Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, er 1. gr. svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Á eftir 22. gr. laganna kemur ný grein, 22. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Tilraun til starfa.

Örorkulífeyrisþega er heimilt að afla sér atvinnutekna í tvö ár án þess að þær skerði örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, tekjutryggingu og sérstaka uppbót á lífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Réttur til að starfa án skerðinga vegna atvinnutekna stofnast við tilkynningu örorkulífeyrisþega til Tryggingastofnunar um að hann hyggist nýta þá heimild eða á síðari dagsetningu sem örorkulífeyrisþegi tilgreinir sérstaklega í tilkynningu sinni. Um tilkynningu fer skv. 52. gr.“

Þetta segir einfaldlega að hér er verið að gefa örorkulífeyrisþegum, öryrkjum, kost á því að fara út á vinnumarkaðinn. Einstaklingurinn sem í hlut á lætur Tryggingastofnun vita hvaða dagur það er sem hann hyggst hefja störf ef hann er svo lánsamur, sem er nú fæstum öryrkjum gefið, að fá atvinnu við hæfi.

Áfram segir:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að skerða bótagreiðslur séu heildartekjur öryrkja hærri en meðallaun í viðkomandi starfsstétt samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.“

Hér er ekki verið að tala um að einhver sem er öryrki geti farið í vinnu og nýtt sér það þannig að hann sé að fá fullt af peningum, fleiri hundruð þúsunda eða einhverjar milljónir annars staðar frá og muni á sama tíma njóta óskertra greiðslna almannatrygginga. Notast skal við nýjustu upplýsingar frá Hagstofunni hverju sinni til þess að sjá fram úr því hvernig viðkomandi er staddur. Skal þá skerða þær greiðslur almannatrygginga sem örorkulífeyrisþegi á rétt á án tillits til atvinnutekna um 50% þeirrar fjárhæðar sem nemur mismun á heildartekjum örorkulífeyrisþega og meðallauna í viðkomandi starfsstétt. Skerðing samkvæmt ákvæðinu er heimil þrátt fyrir ákvæði b-liðar 2. mgr. 16. gr. og 4. mgr. 22. gr.

Óheimilt er að afturkalla útgefið örorkumat á grundvelli starfsgetu örorkulífeyrisþega á því tímabili þegar hann nýtir sér heimild til að afla sér atvinnutekna án skerðinga samkvæmt 1. mgr. Við endurmat örorku skal ekki litið til starfsgetu örorkulífeyrisþega á tímabilinu.

Hafi umsækjandi áður nýtt sér heimild til að afla atvinnutekna án skerðinga getur hann sótt aftur um þá heimild átta árum eftir að tveggja ára tímabili samkvæmt 1. mgr. lauk.

Í II. kafla, Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, í 2. gr. segir svo:

„Á eftir 3. mgr. 9. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. skal ekki telja til tekna atvinnutekjur lífeyrisþega undir meðaltekjum í viðkomandi starfsstétt samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands á því tímabili þegar hann nýtir sér úrræði 1. mgr. 22. gr. a laga um almannatryggingar. Notast skal við nýjustu upplýsingar hverju sinni.“

Í 3. gr. er kveðið á um að lög þessi öðlist þegar gildi. Hér verður náttúrlega líka að taka til laganna um félagslega aðstoð, einfaldlega vegna þess að við búum ekki bara við skerðingar. Öryrkjar og almannatryggingaþegar búa ekki eingöngu við skerðingar, þó að nóg sé á þá lagt með því, heldur skerðingar ofan á það, keðjuverkandi skerðingar eins og fram hefur komið. Það kom t.d. fram í gær, þegar við mæltum fyrir máli er varðaði almannatryggingar, að VR hækkaði greiðslur til félaga sinna samkvæmt lögum sem um það gilda. Og hvað gerist þá, virðulegi forseti? Jú, ef þú færð greiðslur hækkaðar um 10.000 kr. og ert í raun á framfærslu almannatrygginga og ert að nýta þér lífeyrissjóð og annað slíkt þá ertu skertur. Þú ert skertur krónu á móti krónu. Það fór í 65 aura á móti krónu en það gildir ekki um allar tekjur, því miður. Það er einfaldlega þannig að það er nánast allt saman tekið út af óbeinum áhrifum, það fer út í félagslega kerfið, á húsaleigubæturnar, á allt sem þú færð. Það er allt saman skert niður úr öllu valdi. Eftir situr einstaklingur sem á að gleðjast yfir því að sjá að einhverjar umframkrónur komi í umslagið. En nei, honum er refsað. Honum er refsað þrátt fyrir að eiga að fá smámöguleika á því að gleðjast.

Í greinargerð með frumvarpinu sem var lagt fram á 150. og 151. löggjafarþingi — ég er sem sagt að mæla fyrir þessu máli í þriðja skipti, það hefur bersýnilega ekki verið afgreitt annars stæði ég ekki hér. En á fyrri þingum bárust umsagnir um málið frá Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp. Umsagnaraðilar lýstu almennt yfir ánægju með frumvarpið. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju óbreytt.

Ákvæði gildandi laga um almannatryggingar eru torskilin og gjarnan reynist erfitt fyrir hinn almenna borgara að átta sig á framkvæmd laganna. Ég verð nú bara að segja eins og er, með fullri virðingu, virðulegi forseti, að það þarf ákveðinn sérfræðing til að átta sig á því skrímsli sem almannatryggingakerfið er. Minn góði flokksbróðir, Guðmundur Ingi Kristinsson, hefur margkallað það hið bútasaumaða skrímsli, Frankenstein almannatryggingakerfisins. Það þarf hreinlega sérfræðinga og meira en það, það þarf sérfræðinga í að vera sérfræðingar í almannatryggingakerfinu til að botna í því. En við Guðmundur Ingi Kristinsson höfum þurft að búa við þetta kerfi og erum sennilega ein af fáum svokölluðum „sérfræðingum“ sem þekkjum það af eigin raun, af þeim sem eru kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga. Mér er því sannur heiður að því að berjast fyrir þessu máli eins og okkur öllum í Flokki fólksins. Í okkar huga og okkar hjarta er aðeins eitt sem gildir og aðeins ein ástæða fyrir því að ég stend hér og Flokkur fólksins: Fólkið fyrst, svo allt hitt.

Þeir öryrkjar sem fá greiðslu örorkulífeyris skv. 18. gr. laganna vita þó að þeir mega búast við ýmiss konar skerðingum afli þeir sér atvinnutekna. Sannarlega þekkir hver einasti öryrki sem horfir á þetta og hefur vogað sér að reyna að drýgja tekjurnar sínar það að fá bakreikningana ári síðar og skilja ekkert í því að hann skuldar allt í einu allt sem hann hafði reynt að afla sér árið áður. Það er tekið af framfærslunni hans það árið. Eftir stendur hann í miklu verri stöðu en þegar hann var þó að reyna að bjarga sér. Þá er örorkumat gjarnan veitt tímabundið og margir óttast skerðingu bóta ef heilsu þeirra hrakar eftir að þeir hefja vinnu. Og það er nákvæmlega það sem gerist. Fólk vill vinna, það vill enginn lenda í því að missa heilsuna. Það vill enginn vera í þeirri aðstöðu að geta ekki bjargað sér sjálfur og þurfa alltaf að reiða sig á eitthvað sem er eins ósanngjarnt og raun ber vitni og þetta almannatryggingakerfi. En kerfið er þannig úr garði gert.

Ég þekki mýmörg dæmi um að fólk hefur lent í slysi en heldur jafnvel á ákveðnum tímapunkti að það sé orðið það heilsuhraust, líkamlega, að það geti sótt aftur í starfið sitt. En viti menn kannski hálfum mánuði seinna, einum eða tveimur mánuði seinna, kemst viðkomandi að raun um að það reyndist ekki rétt. Hann er engan veginn búinn að ná sér og verður aftur að láta af störfum og bíða eftir því að verða betri. En hvernig bregst almannatryggingakerfið þá við því? Heyrðu, þú verður bara að byrja allt þitt ferli upp á nýtt, sæktu bara um allt upp á nýtt, hversu langan tíma sem það tekur og hversu andfélagslega sem verður tekið á móti þér þegar þú ætlar að koma til baka. Þetta frumvarp okkar kemur algerlega í veg fyrir allt slíkt. Það er engin leið að við séum að efla mannauðinn og hjálpa fólki til sjálfsbjargar, reyna að ná fólkinu sem er búið að missa heilsuna og er tilbúið til þess af öllu hjarta að fara út á vinnumarkaðinn, ef ekkert er nema ótti við það sem ekki er vitað fyrir fram. Ef ég fell aftur, ef ég festist aftur í bakinu, ef ég missi aftur fótinn, ef ég get ekki staðið í vinnunni, ef ég get ekki þetta, ef ég get ekki hitt, þá er ég búinn að missa allt, þá hef ég enga framfærslu, þó að lág hafi verið fyrir. Öryrkjar eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur af framtíðarhorfum sínum ef þeir gera tilraun til að hefja atvinnu á ný. Það er algerlega síðasta sort, enda hefði maður haldið að ríkisstjórnin, sem er að tala um frelsi, sem er að tala um að hvetja fólk og efla mannauðinn — ég veit ekki betur en Framsóknarflokkurinn hafi keyrt sína stefnu á því að fjárfesta í fólki, næstum kominn með kjörorð Flokks fólksins, bara alla baráttuna, og hún skilaði sér nokkuð vel, að fjárfesta í mannauðnum. Þetta er stór liður í þá átt og rosalega stórt tækifæri sem ríkisstjórnin hefur í að fjárfesta í mannauðnum. Þeir sem reyna fyrir sér á vinnumarkaðinum ættu að eiga von á betri lífskjörum, alltaf að eiga von á því. Því er lagt til að öryrkjum verði veitt sérstök heimild sem þeir geti nýtt sér þegar þeir vilja reyna að hefja störf á ný eða auka starfsgetu sína. Fari svo að sú tilraun heppnist ekki þarf öryrkinn ekki að óttast frekari skerðingar lífeyrisgreiðslna eða endurmat örorku á grundvelli þeirrar tilraunar.

Svipað úrræði og við mælum fyrir hér skilaði góðum árangri í Svíþjóð. Þar sneru um 30% þátttakenda aftur út á vinnumarkaðinn, þeirra sem tóku þátt í þessari tilraun sænskra stjórnvalda til að efla mannauð sinn og aðstoða öryrkja við að komast út í lífið á ný. Af öllum þeim sem reyndu það skiluðu ríflega 30% sér ekki aftur inn á almannatryggingakerfið. Þeir eru varanlega þátttakendur. Þetta kallast að fjárfesta í mannauði. Þetta kallast að efla mannauðinn, að draga út þá sem geta raunverulega unnið en eru kannski komnir í svartnætti þunglyndis, vonleysis og vanlíðunar heima. Það er erfitt, virðulegi forseti, virkilega erfitt og það er þekkt og það er vitað að eftir því sem fólk er lengur frá því að vera í félagslegri nánd úti á vinnumarkaði og vera innan um aðra þá er erfiðara að stíga fram og koma út. Það er erfiðara. Þess vegna er verið að reyna að benda á að með þessu móti, með því móti að skerða ekki almannatryggingarnar á meðan fólk er að reyna fyrir sér og athuga og meta sína starfsgetu sjálft — hver er til þess bærari en einstaklingurinn sjálfur að meta starfsgetu sína? Eru það einhverjir bírókratar úti í bæ, sérfræðingar að sunnan sem sitja í einhverjum nefndum og ráðum? Það er alltaf verið að búa til nefndir til að athuga hvernig eigi nú að hræra í þessum öryrkjum og segja þeim til hvers þeir eru bærir og hver þeirra starfsgeta raunverulega sé. En öryrkinn sjálfur hefur reyndar ekkert um það að segja.

Það er eiginlega það, virðulegi forseti, því miður, sem liggur í þessari svokölluðu heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins sem vonandi verður farið í áður en kjörtímabilinu lýkur, ég býst ekki við að ráðist verði í það strax frekar en að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, enda hafa skilaboðin verið skýr til öryrkja og þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Þetta eru tíundaflokks þjóðfélagsþegnar, þeir skila ekki nógu miklu í kassann. Öryrkjar hafa verið kallaðir örorkubyrði. Við erum ekki að skora nógu jákvætt í excel-skjölunum. Við erum ekki að skora nógu vel fyrir ríkissjóð. Það er þess vegna sem öryrkjum er haldið í fátæktargildru, þeir eru innmúraðir í fátækt. Þeir eru að fá útborgað allt niður í 248.000 kr. á mánuði. Hver í ósköpunum getur lifað af því? Bara enginn? Þó að fólk hokri á hrísgrjónum og núðlum þá kallast það ekki líf, virðulegi forseti. Það kallast að ala á þunglyndi, að gera það að verkum að viðkomandi einstaklingur eygir ekki von. Hann á erfitt með að vakna á morgnana. Hann leggst kvíðinn á koddann á kvöldin. Hann getur ekki veitt börnunum sínum nokkurn skapaðan hlut af því sem við teljum eðlilegt, sjálfsagt, í því samfélagi sem við viljum kalla lýðræðislegt og gott samfélag.

Því miður þurfum við að horfast í augu við það að við erum ekki samfélag fyrir alla. Við erum samfélag fyrir suma. Ef við værum samfélag fyrir alla eru það hreinar línur að stjórnvöld myndu taka utan um alla en ekki bara suma. Það á að veita öryrkjum tækifæri á því að komast út á vinnumarkaðinn. Ef við fengjum að horfa upp á það að yfir 30% þeirra sem það gerðu væru raunverulega á það góðum stað að þeir þyrftu ekki aftur að leita inn á almannatryggingakerfið, þá heitir það að fækka öryrkjum. Það hefur ítrekað verið talað um að öryrkjum hafi fjölgað ótæpilega og ég hef líka spurt í þessu æðsta ræðupúlti landsins: Hvernig ætlum við að fara að því að fækka þeim, fyrst þeim er að fjölga svona mikið, án þess að fleygja þeim fyrir björg? Hvernig á að fækka okkur öryrkjum öðruvísi en að fleygja okkur fyrir björg? Hvernig á að fækka okkur á almannatryggingakerfinu? Jú, með því að efla okkur og gefa okkur kost á því að fara að vinna og hjálpa okkur sjálf, með því að gefa okkur tækifæri til að meta eigin starfsgetu, með því að gefa öryrkjum tækifæri til að taka þátt í samfélaginu á eigin forsendum en ekki út af einhverjum sérfræðingum að sunnan sem sitja í kringum eitthvert borð og ákveða það fyrir þig hvort þú sért til þess bær að vinna 30%, 50% eða 70% vinnu og skerða um leið almannatryggingarnar þínar sem því nemur. Það er ekki bara það að starfsgetumatið líti svona út, eins og ég segi hér, heldur hafa stjórnvöld ekki gert ráð fyrir því að engin störf eru til fyrir þá sem eru skertir á almannatryggingunum vegna þess að þeir eru taldir eiga einhverja ákveðna prósentu í starfsgetu. Það eru bara engin störf fyrir þetta fólk, engin.

Virðulegi forseti. Við höfum allt að vinna og engu að tapa. Þessir einstaklingar sem væru hvort heldur sem er á framfærslu almannatrygginga myndu eflast andlega. Þeir myndu eflast úti í samfélaginu, taka þátt í því og koma út úr svartnættinu. Þeir myndu greiða sína skatta og skyldur til samfélagsins eins og allir aðrir, þeir væru ekki lengur örorkubyrði og leiðindatala á excel-skjalinu sem svo gjarnan skilar ekki nógu mörgum krónum í ríkissjóð. Það væri verið að gefa þeim tækifæri til að taka þátt í samfélaginu með okkur hinum. Og ef það er ekki í höndum Alþingis Íslendinga og stjórnvalda hér að gefa öllum tækifæri sem þess eiga kost þá veit ég ekki til hvers við erum hér. Ég veit ekki, virðulegi forseti, til hvers við erum raunverulega kjörin ef það er ekki til að taka utan um alla okkar bræður og systur í samfélaginu.

Ég ætla ekki að fara nánar út í breytingar á löggjöfinni eða frekar í greinargerðina. Ég ætla að benda á það að mjög margir öryrkjar eiga börn — mörg þeirra sem hafa misst heilsuna og lenda í víti þunglyndis og vanlíðunar heima og eiga erfitt með að koma sér út, eiga rosa erfitt með að koma sér út. Það er það erfiðasta af öllu að geta ekki veitt börnunum sínum það sem önnur börn fá, horfa upp á snillinginn sinn og geta ekki leyft honum að fara í tónlistarnám, geta ekki leyft honum að fara í íþróttir, horfa upp á það dýrmætasta sem maður á og vera vanmáttugur, geta ekki veitt barninu sínu það sem telst eðlilegt, sanngjarnt og réttlátt í samfélagi okkar. Ég trúi því ekki, virðulegi forseti, fyrr en ég tek á því, að Flokkur fólksins, Inga Sæland, eigi eftir að mæla fyrir þessu réttlætisfrumvarpi fjórða skiptið í röð. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því.

Virðulegur forseti. Ég vísa málinu til hv. velferðarnefndar.