Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[19:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og það er áhugavert að heyra það, eins og ég skildi hann, að hann er svo sem ekkert ósammála töflunni sem slíkri og telur hana ekki óraunhæfa. En þar segir einmitt líka í textanum, og þá vitna ég í texta hv. þingmanns í nefndarálitinu: „Fyrir flest okkar er þetta bara einn samhengislaus talnagrautur. Sérstaklega af því að framsetningin er í hlutfalli af landsframleiðslu sem enginn veit hver verður fram í tímann.“ Þá er hann væntanlega að vísa í Nostradamus einan sem gæti sagt til um það. En ég furða mig á þessu vegna þess að hv. þingmaður er oft svo upptekinn einmitt af lögunum og framsetningunni og þetta er nákvæmlega það sem segir, í 4. gr. laga um opinber fjármál, um fjármálastefnu, það er svona sem á að setja stefnuna fram og það er svo sannarlega gert hér. Ég verð að viðurkenna að ég hélt að það væri það sem ég væri að fara að sjá hjá hv. þingmanni í töflunum. En nei, þá er þetta þjóðhagsspáin.

Nú höfum við svolítið oft rætt um þjóðhagsspá á síðustu misserum. Ég velti fyrir mér með þessa umræðu og gagnrýni sem hefur verið á þjóðhagsspána hvort fólk vilji sjá annars konar vinnubrögð varðandi þjóðhagsspána sjálfa. Ég vísa oft í það að þjóðhagsspá er unnin af fagfólki, algjörlega óháð því hvað ríkisstjórnin er að gera. Þau eru bara að leggja mat á stöðuna eins og hún er á þeim tímapunkti og spá út frá því hver framtíðin verður ef ekki verður brugðist við með einhverjum hætti. Ríkisstjórnin hefur svo ítrekað í gegnum Covid-faraldurinn brugðist við sem hefur einmitt haft þau áhrif að spárnar þurfa að breytast aftur. Ég spyr hv. þingmann: Er hann með þessum töflum öllum yfir þjóðhagsspár nokkurra ára að gagnrýna þjóðhagsspána sem slíka, lögin á bak við það eða er hreinlega verið að kalla eftir því, eins og stundum er gert hér í umræðunni um ríkisfjármál, að ríkisstjórnin noti sína eigin spá í stefnum og áætlunum? Ég ætla þá að vísa í það að ekki eru mjög mörg ár síðan, ef skoðaðar voru fjármálaáætlanir sveitarfélaga, að gert var ráð fyrir mismunandi verðbólgu (Forseti hringir.) ef horft var til Garðabæjar, Reykjavíkur eða Mosfellsbæjar. Ég fagna því mjög að við séum alla vega komin í þá átt að við byggjum á tölum fagfólks frá Hagstofunni varðandi þjóðhagsspá.