Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

fjármálastefna 2022--2026.

2. mál
[22:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er leitt að heyra að svarið skuli vera nei, vegna þess að ég tel að við séum að fara inn í gríðarlegt hagvaxtarskeið og þegar svo er verðum við að taka á því vandamáli sem er fátækt á Íslandi og fátæktargildrur. Samfélagið er allt of lítið til að þola það að 30% af þjóðinni lifi við fátækt, svo að ég tali nú ekki um öryrkja og aldraða. Öryrkjar, sem eru margir á vinnualdri, fá ekki að njóta sín og reyna að stika sína lífsför sjálfir, finna út hvar starfsgetan liggur og hvernig þeir geta aflað tekna án þess að fara strax í skerðingar. Það var búið að lofa endurskoðun almannatryggingakerfisins. Sú endurskoðun var fyrir jól notuð sem afsökun fyrir því að allt ætti að bíða, allt að vera stopp, varðandi þennan málaflokk. Það þýðir ekki að byrja á því að leggja starfsgetumat á öryrkja og síðan að segja hvað þeir geta. Þeir eiga að finna það út sjálfir hver starfsgeta þeirra er með því að fara út á vinnumarkaðinn og reyna fyrir sér, þeir sem vilja og hafa getu til. Ég tel gríðarlega mikilvægt að tekið verði á þessu máli á næstu árum og fjármálastefnan þarf að endurspegla það. Ég sé það ekki í fjármálastefnunni.

Ég sé heldur ekki í fjármálastefnunni að hætt verði að undirfjármagna Landspítalann svo að dæmi sé tekið. Við sáum það í fjárlögunum síðast, og það mun örugglega koma fram í fjáraukalögunum, að það þarf að setja meiri pening í það. En spurningin er þessi: Sér hv. þingmaður einhvers staðar í fjármálastefnunni stefnu um það að við séum ekki að undirfjármagna Landspítalann og heilbrigðiskerfið? Að við ætlum raunverulega að taka á þessum svarta bletti sem er á íslensku samfélagi. Flokkurinn sem ég er fulltrúi fyrir var stofnaður til að berjast gegn þessu og hann mun örugglega lifa lengur en fjármálastefnan og umræðan um hana?