152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

blóðmerahald.

[16:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Þann 20. október síðastliðinn ályktaði Evrópuþingið, sem er æðsta löggjafarvald Evrópusambandsins með samtals um 700 þingmenn, um að skora á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og aðildarríki að stöðva innflutning og innlenda framleiðslu á vaxtarhormóni sem kemur úr blóðmerum, eða PSMG. Hver var ástæðan? Ástæðan er einföld. Þetta vaxtarhormón er tekið kerfisbundið úr fylfullum hryssum. Evrópuþingið var hér ekki að ráðast á bændur eða bændastéttina í Evrópusambandinu, síður en svo. Evrópuþingið var hér að horfa á hagsmuni hryssanna, hagsmuni dýraverndar. Það eru þeir hagsmunir sem skipta máli. Er blóðmerahald, blóðtaka á vaxtarhormóni úr fylfullum hryssum, dýraníð eða ekki? Við getum líka rætt hinar efnahagslegu orsakir og orðstír landsins. Blóðmerahald á Íslandi var einnig rætt á danska þinginu á miðvikudaginn fyrir rúmri viku. Ástæðan var þetta vídeó, myndbandið sem tekið var á Íslandi um blóðmerahald. Er augljóst mál af þeim umræðum að þingmönnum og ráðherra blöskraði myndbandið. Ráðherrann endaði umræðuna með því að segja að hann myndi taka þetta til nánari skoðunar og ég spái því að sú skoðun muni örugglega leiða til þess að innflutningur á vaxtarhormóninu verði bannaður. Svisslendingar hafa þegar hætt að kaupa blóðmerahormón frá Íslandi. Stjórn svissneskra svínaræktenda ákvað í síðustu viku að banna notkun á PMSG í svínarækt. Ástæðan er sú að þeir væru að kaupa blóðmerahormón frá Íslandi. Álagið á blóðmerar er þríþætt á við önnur hross. Þær nota orku til að framleiða mjólk fyrir folaldið og þroska hið ófædda fyl og nota orku til að bæta fyrir blóðtapið. Ég tel að hér sé um grundvallarmál að ræða sem sé spurning um það hvar Ísland ætlar að staðsetja sig meðal siðmenntaðra þjóða þegar kemur að dýraníði.