152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

blóðmerahald.

[16:10]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Mér hefur persónulega þótt umræðan hafa misst svolítið fókusinn í þessu máli. Hún upphófst sannarlega í þetta skiptið með heimildarmynd sem birt var opinberlega og sýndi slæma meðferð dýra. Það er eðlilegt að það verði fókusinn fyrir vikið. Það sem skiptir þó miklu máli í þessari umræðu er að það er ekki eingöngu möguleikinn á slæmri meðferð sem er vandamálið þegar kemur að blóðtöku hjá fylfullum merum.

Mig langar að taka undir með mörgum þingmönnum sem hér hafa talað, þar á meðal hv. þm. Jódísi Skúladóttur og hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni hvað þetta varðar. Líkt og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson benti á í ræðu sinni áðan má sannarlega efast um að hægt sé að stunda þessa iðju við raunverulega góðar aðstæður þótt það sé ekki útilokað. Vísar hann þar í umsögn Dýraverndarsambands Íslands, sem ég ætla að leyfa mér að vísa til sömuleiðis, þar sem talað er um að lágmarksviðmiði laga um velferð dýra sé ógnað. En til þess að þeim sé náð þurfa dýr að vera laus við vanlíðan, hungur, þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma sem skyni gæddar verur og að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.

Líkt og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson benti á áðan er samfélag okkar í stöðugri þróun og meðferð okkar bæði á fólki og dýrum, en ekki síður siðferðisleg viðhorf okkar og hvernig við förum með okkar siðferðislegu hugmyndir. Við þurfum ekki að væna alla blóðmerabændur um slæma meðferð á dýrum til að gagnrýna þennan iðnað. Í siðferðislegu tilliti er líka mikilvægt að horfa á heildarmyndina og skoða t.d. til hvers þessi iðja er stunduð. (Forseti hringir.) Mér hefur ekki þótt það fá nægilega mikla athygli í þessari umræðu. (Forseti hringir.) Það er liðin sú tíð að við lítum ekki til óbeinna afleiðinga (Forseti hringir.) af því sem við gerum og að við firrum okkur ábyrgð á því. (Forseti hringir.) Þetta er eitthvað sem við þurfum að leggja áherslu á í þessari umræðu.