152. löggjafarþing — 40. fundur,  23. feb. 2022.

blóðmerahald.

[16:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hjartanlega öllum þeim sem tekið hafa þátt í þessari þörfu umræðu sem er um blóðmerahald á Íslandi. Ég vil beina orðum mínum til hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, yfirvarðhunda kerfisins og — já, ég ætla bara að segja það, hagsmunagæsluvarðhunda númer eitt. Það er ekkert verið að skafa af því þegar hjólað er í forystu Flokks fólksins. Það er ekkert verið að skafa af því þegar talað er um að maður sé búinn að týna uppruna sínum. Við hv. þm. Harald Benediktsson vil ég segja þetta: Við höfum aldrei verið nær upprunanum en þegar við fáum tækifæri til að vera málsvarar málleysingja hér á Alþingi Íslendinga. Þetta myndbrot sem við fengum að sjá er brotabrot af myndefni sem telur sennilega um 119 klukkustundir og maður á eftir að tína hérna fram fyrir ykkur sem látið líta svo út að þetta sé eitthvert einstakt, afmarkað dæmi. (HarB: Af hverju vilja þeir ekki …) En það er algerlega aukaatriði í stóra samhenginu sem er þetta: Það er aðeins ein þjóð í Evrópu sem stundar þetta blóðmerahald í því magni sem við erum að gera hér. Það er einn bóndi sem var að hrökklast frá þessu í Þýskalandi í fyrrasumar. Það er verið að banna það víðs vegar að kaupa þetta hormón. Og hvers vegna? Haldið þið virkilega að verið sé að ráðast á bændur? Haldið þið að verið sé að gera það? Við höfum óskað eftir því og gerðum tillögu með fjárlögunum 2022 um að lagðar yrðu inn 220 millj. kr. til að bæta þeim bændum það sem yrðu fyrir búsifjum af þessum sökum. Við hæstv. matvælaráðherra vil ég segja þetta: Mér þótti líka dapurt að sjá að í þessari nefnd skuli fólk vera að rannsaka sjálft sig, eins og frá Matvælastofnun sem hefur leynt og ljóst verið í skötulíki hvað varðar eftirlit og umhirðu með öllu dýrahaldi á landinu, hvorki meira né minna.