152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

aukin orkuþörf.

[10:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hæstv. ráðherra skuli taka undir það og ítreka að það þurfi að virkja meira og framleiða meiri orku á Íslandi. Mér þykja það ákveðin tímamót miðað við hvernig umræðan hefur verið hér að undanförnu. Það er líka jákvætt að hæstv. ráðherra telji rétt að við framleiðum sem mest á Íslandi, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt. En ráðherrann virðist fyrst og fremst horfa til rammaáætlunar. Fyrir aðeins fáeinum dögum má segja að hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi nánast gefist upp á rammaáætlun, a.m.k. gefið út lokaviðvörun ef svo má segja hér í ræðustól gagnvart þessari tilraun sem hefur nú staðið í áratugi, að ef það tækist ekki að klára rammaáætlun væri betra að hverfa frá verkefninu í heild og taka aftur fyrir hvern virkjunarkost fyrir sig og afgreiða hann sérstaklega.

Mun hæstv. forsætisráðherra tryggja það að þriðji áfangi rammaáætlunar, og svo fjórði áfanginn, muni klárast (Forseti hringir.) og um verði að ræða næga virkjunarkosti til að standa undir orkuþörfinni?