152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[15:10]
Horfa

Viktor Stefán Pálsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Eins og þetta horfir við mér er augljóst, og var reyndar rætt hér fyrr í meðferð þessa máls, að eins og frumvarpið er sett upp núna er gengið mjög skammt í þessu. Það var bent á hér að það væri í rauninni ekki rétt að tala um starfsmenn í þessum tilgangi sem stjórnarmenn vegna þess að þeir væru meira eins og áheyrnarfulltrúar sem hefðu að vísu málfrelsis- og tillögurétt en kæmu eðli máls samkvæmt þá ekki að beinni stjórn spítalans, eins og hugmyndir um atvinnulýðræði ganga út á. Þannig að ég held að það mætti gera bót á þessu frumvarpi í þá veru að þessi sjö manna stjórn verði skipuð tveimur fulltrúum starfsmanna sem hefðu ekki bara málfrelsis- og atkvæðisrétt heldur líka atkvæðisrétt á fundum. Ég held að það sé í raun og veru eina leiðin til þess að koma þessu atvinnulýðræði á.

Varðandi notendurna eru örugglega margvísleg sjónarmið þar undir. Í andsvörum hæstv. heilbrigðisráðherra kom í ljós að hann hefði áhyggjur af því að þetta væri mjög fjölbreyttur og stór hópur sem hefði mismunandi þarfir og kannski ekki rétt að hefði beinan atkvæðisrétt. Ég er í sjálfu sér alveg tilbúinn til að skoða hvernig má útfæra að notendur hafi atkvæðisrétt á fundum, það er hugsanlega hægt að útfæra það. En til að byrja með væri í það minnsta hægt að koma því þannig fyrir að notendur hefðu beina aðkomu að stjórninni og gætu tekið til máls og lagt fram tillögur.