152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[17:04]
Horfa

Kolbrún Baldursdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kærar þakkir fyrir þetta andsvar. Mig langar aðeins til að ljúka starfsmannamálum. Ég vona innilega að sú breyting verði gerð á að starfsmannafulltrúinn fái atkvæðarétt því að eins og ég sagði áðan finnst mér annað bara niðurlægjandi. Varðandi mistökin, ó, jú, einmitt. Og talandi um ábyrgð; að axla ábyrgð er einmitt það að viðurkenna mistök ef maður gerir mistök og vilja bæta fyrir mistökin og vonandi er það hægt. Því miður eru mistök stundum óafturkræf og ekki hægt að bæta fyrir þau að fullu. Það er staða sem ég óska engum. En því miður gerist það að fólk gerir mistök sem ekki er hægt að bæta, sem er oft hryllileg byrði að bera. En síðan er þriðja atriðið, það er að læra af mistökum sínum og segja: Já, ég gerði mistök. Ég vil bæta fyrir þau, hvort sem það er með því að segja fyrirgefðu eða með bótum eða öðru og ég ætla að læra af mistökunum, ég ætla ekki að endurtaka þessi mistök. Ef við förum alveg hinn ásinn þá eru líka þeir sem axla ekki ábyrgð, neita að viðurkenna mistök og afneita jafnvel mistökum. Það eru dæmi um það. Það er til upptaka af einhverjum að gera einhver mistök en hann segir: Þetta er ekki ég. Það er alveg hægt að bregðast þannig við eða koma með réttlætingar, kenna öðrum um: Aðstæður voru erfiðar. Ég var manaður eða mönuð til að gera þetta, mér var ögrað.

Ég held að það sé bara komið nóg af sálfræðitíma í dag.