152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[15:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar hér við þessa 1. umr. um fjarskiptalög fyrst að drepa örstutt á sögu málsins og þeirri þrautagöngu sem það hefur lent í hér í þinginu. Mín skoðun er nefnilega sú að þetta sé sennilega besta málið og mikilvægasta málið fyrir hagsmuni lands og þjóðar sem liggur fyrir þinginu samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Það eru nokkur atriði í málinu sem ég kem inn á á eftir sem eru þeirrar gerðar að það er varla boðlegt að meðferðin á þessum nýju fjarskiptalögum hafi verið með þeim hætti sem raunin er. Málið var flutt hér í fyrra, þá endurflutt, mikil vinna lögð í það í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og niðurstaða fengin í helsta ágreiningsmál eða það mál sem flóknast var að útfæra, 87. gr. sem snýr að tækninnviðum farneta og fjarskiptakerfa. En svo dó málið í einhverju bræðiskasti eins ríkisstjórnarflokkanna vegna þess að annað mál hafði þá siglt í strand og þá varð mál frá öðrum stjórnarflokkanna að deyja sömuleiðis. Það er auðvitað ekki boðlegt að málum sé haldið í gíslingu með þessum hætti.

Síðan beið ég alveg frá fyrsta degi þessa þings og reiknaði satt best að segja á hverjum degi með því að málið kæmi fram en svo er því ekki dreift fyrr en um miðjan mars þegar margt bendir til þess að málið lendi í tímahraki aftur. Ég vil gera athugasemdir við þetta strax í byrjun. Hæstv. ráðherra er vissulega í nýju ráðuneyti sem þarf að forma og skipuleggja en miðað við þær mjög takmörkuðu breytingar sem gerðar eru á þessu máli efnislega frá því það var lagt fram í fyrra þá hefði verið gustuk að það kæmi fram miklu fyrr og væri komið í umræðu hér fyrr en undir lok marsmánaðar. Í ofanálag horfum við fram á páskahlé og sveitarstjórnahlé á störfum þingsins sem gerir þetta allt saman miklu þrengra um vik að vinna.

En að efnisatriðum málsins. Ég ætla að byrja á atriði sem var uppi við meðferð málsins á síðasta þingi sem er 87. gr., sem fjallar um mögulegar takmarkanir á heimildum til nýtingar framleiðsluíhluta og tæknilausna tiltekinna framleiðanda á grundvelli öryggissjónarmiða. Þetta mál var rætt mikið, svo vægt sé til orða tekið. Sérstök undirnefnd sett á laggirnar innan umhverfis- og samgöngunefndar á síðasta þingi og fundin prýðisgóð lausn, að ég leyfi mér að fullyrða, sem allir aðilar sem að málinu komu töldu bæði tryggja öryggishagsmuni íslenskrar þjóðar og tryggja það að rekstrarhæfi fjarskiptafyrirtækjanna sem eru að störfum væri ekki ógnað né heldur að of mikil fjárhagsleg áhætta væri lögð á þá sem á þessum markaði starfa varðandi uppbyggingu sinna eigin kerfa. Það kom mér því alveg hreint ótrúlega á óvart þegar ég sá að við framlagningu málsins núna var þessi hluti 87. gr. óbreyttur eftir alla þá vinnu sem lögð hafði verið í það að finna brúklega lausn á liðnu ári. Í fundarstjórn forseta áður en þessi umræða um fjarskiptamálin hófst var mönnum tíðrætt um það að fyrrverandi ráðherra þessa málaflokks teldi tíma Alþingis sóað og ég held að það hefði verið gustuk hefði ráðherra leyst þennan hluta málsins strax áður en til framlagningar málsins kom enda lausnin borðleggjandi einföld, skynsamleg, sanngjörn og að ég held allir sammála um að hún sé leiðin til að fara. Ég er áheyrnarfulltrúi í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þannig að ég gæti nú kannski lagt orð í belg þar inni. En ég held að hvað 87. gr. varðar verðum við að ganga þannig frá málum að dreifikerfi þeirra aðila sem á markaðnum starfa, þessum litla markaði sem er Ísland, verði metin sem ein heild, enda drjúgt svigrúm komi upp sú staða að eitt kerfanna eða hluti þess verði talið ótryggt, þá er lítið mál að færa tímabundið kúnna þessara aðila yfir á önnur kerfi. Leiðin hvað 87. gr. varðar held ég að sé enn sú sama og niðurstaðan varð í nefndarvinnunni í fyrra, að líta á kerfið heildstætt, sem eina heild, sem sagt kerfisþætti hvers fyrirtækis fyrir sig. Það einfaldlega leysir þetta mál. Það hafa komið fram sjónarmið um að þetta sé skýrara en í fyrra í greinargerð málsins. Ég finn því ekki stað í fljótri yfirferð þannig að ég hvet hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að laga þetta mál og nýta þá vinnu sem unnin var á liðnu kjörtímabili.

Að því sögðu um 87. gr. þá langar mig að segja nokkur orð er snúa að megináherslum frumvarpsins. Það eru hér atriði er snúa að svokallaðri aðferðafræði við markaðsgreiningar á markaði. Þetta er gríðarlega mikilvægur þáttur Fjarskiptastofu og hafa sumar markaðsgreiningar tekið lengri tíma en ráð var fyrir gert og í rauninni lög og reglur gera ráð fyrir. En það eru nýmæli í Kóðanum sem kveða á um tímafresti og ég held að það sé til mikilla bóta og m.a. í þessu ljósi er ég þeirrar skoðunar að það hefði verið mikið til vinnandi að klára þetta mál strax í fyrra. Sömuleiðis eru hvatar til samstarfs markaðsaðila og sameiginlegra fjárfestinga af uppbyggingu innviða. Það er ýtt undir þá í þessu frumvarp. Eins og kom fram við framsögu hæstv. ráðherra, þó að það hafi slitnað hér á milli í umræðunni, þá grundvallast þetta á svokölluðum Kóða sem eru samevrópskar reglur um fjarskiptamarkaðinn. Þessir hvatar til samstarfs markaðsaðila hafa t.d. áhrif. Það er kannski mest horft í dag á samstarf er varðar nýtingu 5G uppbyggingar en þetta hefur nefnilega líka áhrif á aðrar tíðnigerðir þannig að við sjáum fyrir okkur að til að mynda símasamband á þjóðvegum landsins ætti að geta stórbatnað þegar ýtt er undir reikisamstarf þeirra aðila sem starfa landið um kring. Þá er það ekki þannig að sími viðkomandi hangi inni á þjónustuaðila þess fram á síðasta strik þegar allt er orðið meira og minna sambandslaust heldur flæði símtalið meira á milli kerfa. Ef vel tekst til er þetta gríðarleg breyting fyrir þá sem keyra um hinar dreifðu byggðir landsins og auðvitað alveg óþolandi að þetta sé enn óafgreitt miðað við það hvenær málið var tilbúið raunverulega.

Mig langar til að nefna hér atriði sem er aukin áhersla á aðgengi neytenda að upplýsingum og samanburður á verði og gæðum fjarskiptaþjónustu og stöðlun viðskiptaskilmála. Ef það er eitthvað sem maður skilur ekki í lífinu þá finnst mér það nú stundum vera reikningar fyrir fjarskiptaþjónustu og ýmsri slíkri gagnaþjónustu sem flest heimili eru áskrifendur að í dag eða kaupendur. Það verður til mikilla bóta að auka gegnsæi í þeim efnum og auðvelda fólki að glöggva sig á því hvað er um að ræða. Sjálfur átti ég símtal við þjónustuveitanda fyrir hönd ættingja fyrir nokkrum vikum síðan og þar kom á daginn að það voru rúmar 10.000 kr. á mánuði sem var verið að tvíborga fyrir þjónustu sem var verið að kaupa í öðrum pakka sem viðkomandi var áskrifandi að. Allt safnast þetta upp.

Í þessu samhengi, út frá þessum neytandavinkli, vil ég jafnframt nefna að ég held að það sé skynsamlegt að umhverfis- og samgöngunefnd óski eftir upplýsingum er snúa að binditíma, hámarksbinditíma. Hér er lagt til að hámarksbinditími á grundvelli fjarskiptasamninga verði lengdur úr sex mánuðum í 12. Kóðinn gerir ráð fyrir að hámarksbinditími sé 24 mánuðir en núna er staðan sú að það eru bara Ísland og Danmörk sem eru með sex mánaða viðmiðið. Hér er lagt til að færa það upp í 12. Ég held að það verði að fara fram einhver greining á því hver ábatinn fyrir neytendur getur verið af því að með opnum augum bindi menn sig til lengri tíma heldur en til sex eða 12 mánaða, til þessa 24 mánaða, því að það er auðvitað þannig með veltuhraða viðskiptavina að því meiri sem hann er, þeim mun líklegra er það til að orsaka hækkun á heildarverði þeirrar þjónustu sem veitt er. Ég held að almenningur allur í öllum meginatriðum beri skynbragð á það hvort skynsamlegt sé að binda sig til lengri tíma en sex mánaða, hvort sem það eru 12 eða 24. En mestu máli finnst mér skipta að það liggi einhver greining þarna á bak við um hvað sé gefið eftir af mögulegri hagræðingu í verði með því að takmarka þetta við sex eða 12 mánuði í staðinn fyrir að nýta 24 mánaða rammann.

Næst langar mig að nefna hér tillögu sem liggur fyrir í þessu frumvarpi um að Fjarskiptastofa fái almenna heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á fjarskiptalögum. Það má eflaust til sanns vegar færa að sektir hafi verið á löngum köflum hóflegar í þessu umhverfi en mér sýnist á öllu, og svona minnugur umsagna sem bárust við vinnslu málsins í fyrra, að það væri ástæða fyrir umhverfis- og samgöngunefnd að skoða hvort of hátt sé reitt til höggs í frumvarpinu eins og það liggur fyrir. Ég treysti mér ekki til að finna töluna núna í fljótu bragði í pontu en mig minnir að hámarkshækkun sé áætluð 4% af ársveltu. Það er gríðarlega há upphæð. Auðvitað er ætlaður fælingarmáttur í þessum efnum en ég held að það verði að vera einhver raunheimatenging við mögulegar sektarupphæðir sem kunna að koma til vegna brota á fjarskiptalögum og tel að í flestum tilfellum væri haganlegri leið að útfæra sektir á grundvelli dagsekta en himinhárra stjórnvaldssekta.

Eins og ég kom inn á í byrjun ræðu minnar er frumvarpið nú lagt fram með sáralitlum breytingum eins og ráðuneytið orðaði það sjálft — ég ætla ekki að telja það upp, það er of langt en það eru smávægilegar breytingar á frumvarpinu frá því það var lagt fram síðast og því ætti umhverfis- og samgöngunefnd að vera í lófa lagið að vinna málið hratt og vel. En ég held að þessi atriði verði að koma til sérstakrar skoðunar. Að sama skapi legg ég til þennan mikla tímasparnað er varðar vinnslu 87. gr. og að nýta þá vinnu sem unnin var í fyrra og er til mikilla bóta.

Það er áætlað að kostnaður vegna þessa sé 185 milljónir á ári. Það er rétt að halda því til haga að áætlaður kostnaðarauki er ófjármagnaður í fjármálaáætlun og það vekur upp þá spurningu hvort það séu fleiri mál ríkisstjórnarinnar sem nú eru á færibandinu sem í engu er tekið tillit til í þeirri fjármálaáætlun sem liggur nú fyrir, þannig að það þarf að skoða sérstaklega og óska upplýsinga er þetta varðar í vinnslu nefndarinnar.

Í lokin vil ég nefna að það er áætlað að gjaldtaka samkvæmt bráðabirgðaákvæði geti mögulega skilað 750 millj. kr. í einskiptistekjur fyrir ríkið, þ.e. ef öllum tíðniheimildum verður endurúthlutað við lok núgildandi gildistíma þeirra. Í þessu samhengi finnst mér að þurfi að hafa í huga að þarna er verið að endurúthluta tíðniheimildum til aðila á markaði sem þegar eru að nýta þær og það má því leiða líkur að því að þessar 750 milljónir fari þráðbeint til hækkunar á reikningi viðskiptavina fjarskiptafyrirtækjanna. Ég vil því biðja hv. umhverfis- og samgöngunefnd að óska greiningar á því hvaða áhrif líkleg eru að verði (Forseti hringir.) af þessari gjaldtöku enda finnst mér blasa við (Forseti hringir.) að líklegast er að þær 750 milljónir sem þarna eru tilgreindar verði fyrst og fremst teknar úr vasa notenda þjónustunnar.