152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[17:42]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er svo sannarlega sammála því að það eru spennandi tækifæri fram undan að nútímavæða allt Ísland af því að störf án staðsetningar krefjast þess að innviðir séu til staðar, t.d. að við höfum stöðugt rafmagn Það er ekki vegna þess að okkur skortir orku sem rafmagnið er ekki stöðugt heldur hafa stjórnvöld því miður ekki sinnt því að tryggja flutningskerfi raforku á Íslandi. Nú bjó ég í Bolungarvík, einum fallegasta stað á Íslandi og besta til að ala upp börn, og á meðan ég var þar stundaði ég háskólanám og þurfti eðli málsins samkvæmt stundum að taka próf sem voru á netinu. Þá lenti ég oftar en ekki í því að rafmagnið fór. Það var ekki brjálað veður en það bara fór rafmagnið og ég gat ekki tekið prófið. Og þetta var ekki á síðustu öld. Þetta var bara núna um daginn. Það er ekkert svo langt síðan.