152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[18:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir ágæta ræðu. Þingmaðurinn kom inn á mál sem ég verð að viðurkenna að mér vannst ekki tími til að koma inn á í ræðu minni en skiptir miklu máli í samhengi við þetta mál allt saman og það er sú staða sem fjarskiptafyrirtækin finna sig í, komi til þess að íþyngjandi ákvarðanir verði teknar. Hvernig er til að mynda mögulegri bótaskyldu háttað, með hvaða hætti er ákvörðunin tekin, hver eru andmælin, hvaða skaðamildandi aðgerðir eru mögulegar og þar fram eftir götunum? Allt þetta skiptir gríðarlega miklu máli vegna þess að áhættan af svona yfirvofandi kostnaði endar að lokum á neytandanum. Það er bara þannig þegar við horfum yfir lengri tíma. Mig langar því að spyrja hv. þingmann, hafandi verið fulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd á liðnu kjörtímabili, (Forseti hringir.) hvað það sé helst sem henni, til viðbótar við þetta, þykir vanta upp á skýrleika (Forseti hringir.) hvað stöðu fjarskiptafyrirtækjanna varðar verði einhverjum þessara íþyngjandi leiða beitt.