152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[19:08]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er sama marki brennd, ég hef ekki sökkt mér ofan í frumvarpið í smáatriðum, en þetta voru hlutir sem ég hjó eftir. Það er rétt að við endurúthlutun tíðniheimilda er þetta sérstaka gjald sem er nýmæli, 756 milljónir, og eins og við vitum er stærsti hlutinn greiddur af þessum þremur fyrirtækjum sem um ræðir. Rökstuðningurinn er m.a. sá að endurúthlutaðar tíðnir verði síðan nýttar fyrir 5G þjónustu og það séu auknir nýtingarmöguleikar og aukin verðmætasköpun í fyrirtækjunum og þetta sé einskiptiskostnaður. Það er alveg rétt og það er þess vegna sem ég hjó eftir orðum hv. þingmanns í þeirri ræðu sem hún flutti áður, þetta er kannski enn eitt dæmið um hluti sem við þurfum að hafa inni þegar við tölum um auðlindastefnu okkar, hvernig við ætlum að nýta auðlindir þjóðarinnar sem best og þá annars vegar í merkingunni nýting, þ.e. að koma þeim í not fyrir þjóðina, (Forseti hringir.) en hins vegar er það endurgjaldið sem við eigum með réttu að fá fyrir. Þannig að þetta er enn einn hluturinn sem þarf að fara ofan í.