152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[20:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð að segja að ég er að mörgu leyti sammála en líka ósammála. Ég vil hafa hlutina einfalda. Ég hef þá tilfinningu þegar hlutirnir eru orðnir svona flóknir að það séu alltaf færri og færri sem skilja þá og þá eru auðvitað færri og færri sem geta varið sig. Tækninni fleygir það hratt fram að venjulegur einstaklingur notar ekki nema innan við 10% af því sem síminn hans getur virkilega gert. Við erum með tölvur og við notum yfirleitt bara einföldustu hlutina í henni. Ég veit ekki hversu mörg prósent af getu tölvunnar við nýtum í daglegu lífi og áttum okkur ekki á hinum 90%, sem við gætum notað af því að við höfum ekki þekkingu til þess. Þess vegna segi ég að það að hafa hlutina svona flókna gerir það að verkum að venjulegt fólk áttar sig ekkert á því hvort það sé verið að brjóta reglur eða lögin í því samhengi. Það hefur ekki þekkingu til að upplýsa sjálft sig og veit sennilega ekki hvert það á að leita til að komast að því hvort brotið hefur verið á því. Það segir okkur að þegar hlutir eru orðnir svo flóknir að þú hefur enga möguleika á því að verja þig gegn þeim verður þú að treysta á kerfið og að treysta á kerfið — nei, það er ekki mjög spennandi.