152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[22:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Það er nefnilega einmitt málið að viðskiptakostnaðurinn fellur einhvers staðar á endanum í allri þessari hringekju. En hitt atriðið sem mig langaði að spyrja hv. þingmann út í sneri að því sem hann kom inn á undir lok ræðu sinnar, þ.e. úthlutun tíðniheimilda út frá sjónarmiðum takmarkaðra auðlinda. Tíðniheimildir eru augljóslega takmörkuð auðlind. Það fer ekkert á milli mála. Ég hef áhyggjur af því. Talan er 750 milljónir um það bil, ég man hana ekki upp á milljón, er á grundvelli endurúthlutunar þegar úthlutaðra tíðna þannig að þetta er til fyrirtækja sem þegar eru að nýta þessar tíðnir. Ég hef áhyggjur af því að þessi reikningur lendi í heild sinni á viðskiptavinum þessara fyrirtækja því að það er í rauninni engin eðlisbreyting að verða á markaðnum við þessa endurúthlutun. Það er nokkurn veginn sami fjöldi kúnna sem nýtir sama magn af þjónustu daginn fyrir og daginn eftir útgáfu reikningsins. Ég hef áhyggjur af því að kostnaðurinn af þessu speglist að fullu, bara 100%, yfir á endanotandann, viðskiptavininn. Ég held að þetta sé mjög áhugaverð vangavelta út frá verðlagningu fyrir aðgang að takmörkuðum auðlindum og passar einmitt við þingsályktun sem var vísað til ríkisstjórnar, með þeim afleiðingum sem slíkt hefur haft undanfarin ár, þingsályktun Miðflokksins frá því í hittiðfyrra, ef ég man rétt, um einmitt svona greiningu, heildargreiningu, á öllum þessum auðlindum og þá takmörkuðum auðlindum landsins. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann deili að einhverju marki þessum áhyggjum af því að þessi kostnaður speglist bara á pari yfir á núverandi viðskiptavini fjarskiptafyrirtækjanna.

(Forseti (BLG): Forseti sagði ein mínúta en gleymdi að ýta á takkann af því að það gerist ekki sjálfkrafa. Það er algerlega forseta að kenna og ég biðst afsökunar.)