152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af hálfu fjármálaráðuneytisins var lögð á það áhersla að það giltu almennar reglur í þessu útboðsferli, sem þýðir m.a. að gagnvart tegundum fjárfesta, segjum lífeyrissjóðum eða eftir atvikum fagfjárfestum öðrum, þá þyrfti eitt yfir alla að ganga. Þegar hv. þingmaður spyr: Með hvaða rökum var litlum fjárfestum hleypt að? þá var þeim í sjálfu sér ekki hleypt að sérstaklega. En ég tek því þannig að hv. þingmaður sé að spyrja hvers vegna ekki var sett eitthvert lágmark á þátttökuna. Það hefði svo sem mátt sjá það fyrir sér að það þyrfti að koma með lágmarksþátttöku, segjum 100 milljónir, 200 milljónir, 500 milljónir. Ég fann ekki fyrir því að það væri áberandi í umsögnum héðan af þinginu en það hefði sannarlega sigtað út, eigum við að leyfa okkur að segja minni spámenn, með því að segja að það fær enginn að taka þátt nema hann sé með visst umfang. En þá þurfum við að hafa það í huga að í fyrri umferðinni þegar við fórum í almenna útboðið þá voru slíkir fjárfestar nær alfarið skornir niður. Það var nákvæmlega engin áhersla á að hafa þá með í hluthafahópnum. Þeir sem voru í algerum forgangi var almenningur sem ekki var skorinn niður ef tilboðin voru upp að 1 milljón. Þeir fengu þá fulla úthlutun. Ég var áður búinn að nefna hornsteinsfjárfestana sem voru sérstaklega lokkaðir að almenna útboðinu með því að koma fyrstir inn og tryggja þannig að þetta gæti orðið árangursríkt. Síðan var við úthlutun í almenna útboðinu frekar leitast við að tryggja úthlutun til þeirra sem væri einhver kjölfesta í. Það má þess vegna spyrja sig hvort ástæða hefði verið til að setja slíkt lágmark á þátttöku að þessu sinni vegna þess að þá hefðum við sagt við hina almennu fjárfesta, innlenda eða erlenda sem vildu fjárfesta (Forseti hringir.) fyrir einhverja slíkar fjárhæðir í bæði skiptin: Þið eruð óæskilegir. Ég veit ekki hvort tilefni var til þess að gera það.