152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé eins og ég rakti áðan; það má hafa skoðanir á því hvort það hefði með einhverjum hætti þjónað betur tilgangi okkar með sölunni að hafa einhverja lágmarksþátttöku. Ég ætla ekki að fullyrða að svo sé. En ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni þegar hún segir að það geti varpað skugga á útboðsferlið að það séu sögur um það að einhverjir hafi verið svo heppnir að haft hafi verið samband við þá á meðan aðrir hafi kannski ekki verið í þeim hópi. En einu verður ekki haldið fram um ferlið í heild sinni, það er að það hafi ekki verið opið og gegnsætt, vegna þess að við höfum rætt þetta hér á þinginu, við höfum gert opinber áform okkar í þessu efni og Bankasýslan hafði sömuleiðis gert það þegar hún lét til skarar skríða.

Varðandi birtinguna þá hef ég hér rakið að Íslandsbanki mun gera aðgengilegan allan hluthafalistann eins og hann var fyrir útboðið og eins og hann lítur út eftir útboðið þannig að þar ætti að vera hægt að sjá þetta. Ég hef sömuleiðis kallað eftir en ekki enn fengið (Forseti hringir.) niðurstöðu úthlutunarinnar og vil gera hana aðgengilega og mun gera það, nema mér séu einhverjar hömlur settar með lögum til þess að gera það, sem ég vona og trúi ekki að sé.