152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:13]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það var tekin ákvörðun í þessari annarri umferð á sölu hluta Íslandsbanka að halda ekki almennt útboð, þ.e. almenningi gafst ekki kostur á að kaupa í þessu útboði. Rökin voru þau að það hefði verið nóg um slíka fjárfesta í síðasta útboði. Nú væri komið að hæfu fjárfestunum, fagfjárfestunum, og fyrir því væru ýmis rök. Ef hugmyndin er að fá að borðinu stóra fjárfesta sem treysta sér til að styðja við rekstur bankans til lengri tíma, kaupa þar með stóran hlut og taka umtalsverða markaðsáhættu með því að kaupa stóran hlut, hlut sem gæti mögulega fallið í verði eftir kaupin, þá væri eðlilegt að veita afslátt á markaðsverði. Kostnaður við slíkt útboð væri og er að öllu jöfnu líka lægri því umfangið er einfaldlega minna, samskipti við færri aðila, meiri vissa í áhuga, einfaldari útfærsla. Svona var þessu stillt upp, að þetta væri tæknileg útfærsla sem borgaði sig. Þetta væri alþekkt. Þegar hæstv. ráðherra var spurður að morgni útboðs hvers vegna veittur hefði verið þessi 5 kr. afsláttur, þrátt fyrir að umtalsverð umframeftirspurn hefði verið eftir bréfum í bankanum, var svarið að það hafi byggt á því að heildarmyndin hafi skipt máli, hverjir keyptu. Hverjir keyptu væri það sem skipti máli. Ef þetta snerist bara um að finna hæstbjóðanda myndu réttu fjárfestarnir ekki endilega finnast. Já, hverjir keyptu skiptir máli. Undir það má nefnilega taka.

Tilboðsferli er vissulega þekkt aðferð við sölu á stórum hlutum í fyrirtækjum. En tvennt þarf þá að hafa í huga. Í fyrsta lagi er afslátturinn ekki meitlaður í stein. Hann tekur mið af áhuga og við höfum ekki fengið að vita hvernig sá áhugi dreifðist. Bara yfirlýsingar frá Bankasýslunni um að talsverð umframeftirspurn hafi verið og svo fréttaflutningur þar sem fólk er að reyna að leggja tvo og tvo saman. Í öðru lagi er ekki bara verið að selja einhverja eign, ekki bara eitthvert fyrirtæki, heldur ríkiseign, almenningseign. Því skiptir enn meira máli að almenningur fái skýr rök fyrir því hvers vegna verðmiðinn var þessi og hvers vegna þeir aðilar sem fengu að kaupa fengu að kaupa og hvers vegna svo og svo mikið. Hér er kannski fullmikið verið að reyna á stjórnvöld, alvöru gagnsæi og plan, sýn fyrir fjármálakerfið. Hvað vilja stjórnvöld sjá? Hverjir eiga að eiga íslensku bankana og er sú sýn raunhæf?

Því var velt upp að gott væri að fá erlendan aðila á sínum tíma þegar það var vitað mál að slíkt væri ógjörningur, að fá stóran stöðugan fjárfesti með langtímasjónarmið og reynslu af bankarekstri, kannski jafnvel erlendan banka, til að kaupa hér í krónukerfi. Hætt var við tvíhliða skráningu á sínum tíma og reyna að koma bankanum á markað erlendis þannig að það var alltaf ljóst að þetta var að fara fyrst og fremst til innlendra fjárfesta. Og hverjir viljum við að það verði?

Virðulegi forseti. Áður en ég fer lengra langar mig til að gera athugasemd við málflutninginn í þessu söluferli, ákveðinn tón. Ég er mikill talsmaður málefnalegrar umræðu án óþarfa upphrópana en ég kann ekki að meta það þegar nálgast er svona stórt mál með svolitlum mikilmennskutón: Við vitum hvað við erum að gera, þetta er bara tæknilegt mál og þið þarna úti þekkið bara ekki hvernig fjármálamarkaðir virka. Hæstv. fjármálaráðherra vísar í sífellu til Bankasýslunnar sem sjálfstæðs aðila sem var fenginn í utanumhald um bankaeign ríkisins út frá armslengdarsjónarmiði. Svo birtast áform um sölu og Bankasýslan mætir og fer að segja fólki og þjóðkjörnum fulltrúum frá því hvernig þetta verður gert. Allt mjög teknókratískt. Þetta eru bara staðreyndir og tölur. Svo tekur hæstv. fjármálaráðherra upp málflutninginn frá Bankasýslunni og sver af sér pólitík því að þetta komi allt saman frá Bankasýslunni. En það er pólitík í öllu. Það er pólitík í því hvaða viðmið eru notuð í kynningum. Það er pólitík í því hvernig samanburðartölur eru valdar. Kynning Bankasýslunnar á sölunni á Íslandsbanka í þetta skiptið sem birtist mjög víða innihélt til að mynda langa útskýringu á því hvers vegna bankaskatturinn væri svo slæmur, sýndi fram á virðisrýrnun á eignarhlut ríkissjóðs vegna skattsins. En það láðist að taka til að mynda fram í þeirri framsetningu — sem skiptir sköpum ef það á að skoða hvort bankaskatturinn myndi skila nettó jákvæðri summu til ríkissjóðs eða nettó neikvæðri — að inni í þeirri tölu sem í kynningunni var var virðisrýrnun Landsbankans, banka sem stendur ekkert til að selja. Það hafði veruleg áhrif á þá framsetningu. Þetta skiptir máli því að umræða um að halda Landsbankanum snýr ekki bara að því hverju það skilar eða skilar ekki í ríkiskassann heldur líka aðhaldshlutverki á fjármálamarkaði, mikilvægi þess að vera með ákveðið akkeri þegar kemur að launahlutföllum, arðsemishlutföllum, kostnaðarhlutföllum, samfélagslegu sjónarmiði. Og þessi söguskýring hjá hæstv. fjármálaráðherra varðandi Íbúðalánasjóð er merkileg í þessu samhengi vegna þess að það var einmitt pólitísk ákvörðun sem var tekin hér 2003 um að opna flóðgáttirnar á lánveitingar frá Íbúðalánasjóði sem gerði Íbúðalánasjóð gjaldþrota.

Þá var vitnað í sama tilgangi til arðsemi bankanna í kynningum Bankasýslunnar, sér í lagi út af þessari umræðu um bankaskatt og hvers vegna það væri fráleitt að endurskoða þá ákvörðun sem tekin var í Covid að lækka álögur á bankana til að örva hagkerfið. Samt voru samhliða því veittar stórar upphæðir til fyrirtækja í íslensku atvinnulífi til að koma í veg fyrir stórkostleg áföll sem hjálpuðu til við efnahagsreikninga bankanna. Sú virðisrýrnun, sem gekk í fyrra til baka á lánasöfnum bankanna og skilaði þeim þess vegna mikilli arðsemi auk mikilla umsvifa á hlutabréfamarkaði vegna örvunaraðgerða stjórnvalda, skilaði sér í gífurlegri arðsemi. Þetta er stórpólitískt mál. Það er nefnilega pólitík í öllu. En Bankasýslan mætir með kynningu og talar um hversu slæmt það væri fyrir virði bankanna að skoða bankaskattinn. Afsakið, en hvað er ríkið að reyna að gera með þessari sölu? Hámarka hagnað, hámarka virðið til skamms tíma eða að reyna að byggja upp samfélag? Þetta snýr að dýnamíkinni í kerfinu, hegðun mjög mikilvægra stofnana í okkar hagkerfi. Hvernig bankarnir eru reknir er stórpólitískt mál þótt þeir fari á einkamarkað. Hér er stofnun, sem á að vera teknókratísk, að vasast í mjög pólitísku máli, virðulegi forseti. Í þetta vitnar hæstv. fjármálaráðherra eins og heilagan sannleik.

Virðulegi forseti. Mig langar að fullyrða að umræðan um þetta mál, sölu bankanna, ber keim af svona stjórnmálum óhjákvæmileikans, stjórnmálum sem segja þá sögu að við séum alltaf á réttri leið. Þó að vandamál komi upp þá sé það bara nauðsynleg og afleidd áhrif kerfis sem sé fengið að ofan, hlutlauss kerfis. Óhjákvæmileg þróun í tilviki óhefts markaðskerfis birtist með þeim hætti að aðalmálið sé að koma hlutunum á markað, ósýnilega höndin, markaðurinn muni bara koma hlutunum á réttan stað. Ef afleidd áhrif verða sú að einhverjir kaupi sem þurfi ekki að kaupa, t.d. á afslætti, þá sé það bara hliðarmál, eins og heyrðist hér áðan í andsvörum hæstv. fjármálaráðherra, því að stóra fréttin er sú að bankinn var seldur. Þá gleymirðu gildunum, þá þarf ekki að spyrja gagnrýnna og erfiðra spurninga og horfa inn á við því að ferlið sjái bara um þetta allt saman.

Ég segi þetta einmitt í samhengi við umrædda mikilvæga hliðarafurð af þessari sölu sem nú er að birtast. Það er ekki hægt að taka pólitíkina út úr tilboðsleiðinni þegar verið er að selja almenningseign. Þetta kemur okkur öllum hér inni við. Mín vonbrigði snúa að því að það var ekki hægt að fara þá leið að markmiðin með sölunni væru skýr og allt uppi á borðinu. Hvers var vonast til að selja til? Hvernig fóru tilboðin fram? Ég er nokkuð viss um að ef hæstv. fjármálaráðherra hefði staðið hér í pontu fyrir nokkrum vikum síðan og sagt að það væri markmið með sölunni að fá inn slatta af tilfallandi smáum fjárfestum til að leggja inn 10–50 millj. kr. í bankann og veita þeim afslátt af upphæð hlutar sem þeir gátu allt eins keypt á eftirmarkaði eins og allir aðrir, þá hefði verið gerð athugasemd við það. Hvers vegna var skilinn eftir stabbi fyrir svona litla aðila til að fljóta með? Hvers vegna? Við höfum ekki fengið skýr svör við þessu. Þetta þarf að koma fram á þeim lista sem hæstv. ráðherra vitnaði áðan til af því að upplýsingarnar sem hafa hingað til komið fram segja bara sögur um stóru aðilana. Stóra myndin. Það er þessi óhjákvæmileiki. Afleiddu áhrifin, hliðaráhrifin skipta engu máli.

Svona umræða, svona sögur, eins og ég vitnaði hér til áðan, gróusögur um það hverjir fengju að kaupa og hverjir ekki, eru ekki góðar, virðulegi forseti. Höfum við ekkert lært? Þetta þarf að fá á hreint. Er hæstv. ráðherra að lýsa því yfir að full ástæða hafi verið fyrir svona afslætti og því að skerða hlut aðila sem voru þá hvað, of hæfir, of stórir og of miklir langtímafjárfestar? Þetta þarf alltaf að liggja fyrir. Traustið er einfaldlega of lítið hér á bankakerfinu, sem mér þykir miður, til að leyfa svona sögum að fljóta án þess að upplýsa hvað raunverulega gekk á. Ég endurtek: Við vitum ekki hverjir fengu að fljóta með, hvaða litlu aðilar fengu að kaupa og hvers vegna. Einn aðili keypti fyrir 55 millj. kr., annar 27, sá þriðji fyrir 11. Þetta er bara það sem við vitum út af tilviljanakenndum upplýsingum. Eru þetta langtímafjárfestar? Eru þeir að taka á sig umtalsverða markaðsáhættu fyrir almenning til að koma þessum banka á markað? Ég frábið mér þann málflutning að þetta sé einhvers konar eðlilegt fyrirkomulag. Það er það ekki. Tilgangurinn með tilboðsfyrirkomulaginu var ekki að leyfa nokkrum fagfjárfestum sem eru að fjárfesta fyrir sitt persónulega bókhald að fá smá afslátt. Svona upphæðir, litlar upphæðir sem vekja minni athygli, geta nefnilega oft gefið til kynna að um spillingu sé að ræða. Hvernig voru þessir aðilar valdir, hversu stór hluti Íslandsbanka í þessari umferð var seldur undir markaðsverði til aðila sem höfðu ekkert við svona afslátt að gera því að þeir gátu keypt á eftirmarkaði? Aðilar sem eru ekki stórir langtímafjárfestar heldur mögulega bara á réttum hringilista hjá verðbréfamiðlara. Þetta þarf að birta. Hvernig líta tilboðin út frá stóru langtímafjárfestunum og kölluðu þau virkilega á að þessum aðilum væri hleypt að?

Virðulegi forseti. Viðhorfið til þessarar sölu er því miður ekki alveg rétt. Það virðist vera takmarkaður sans fyrir þeirri viðkvæmni sem er gagnvart þessari einkavæðingu. Hugmyndin er einhvern veginn sú að þessi sala með þessum hætti hafi verið óhjákvæmileg, hliðaráhrifin, þeir sem fengu að fljóta með, skipti engu máli því salan gekk svona í heildina séð vel. Við höfum fimm ára reynslu af einkavæddu bankakerfi, fimm ár. Það er fullkomlega eðlilegt að fólk sé hrætt en nú gefst tækifæri til að setja allt upp á borðið, birta bara allar þessar upplýsingar. Hversu stór stabbi fór til þessara minni aðila, hvernig þeir voru valdir, af hvaða lista þeir komu, upphæðirnar, hverjir fengu skerðingu? Af hverju var ákveðnum langtímafjárfestum sem voru ekki að fjárfesta fyrir eigin bók hafnað? Það eru gríðarleg tækifæri fram undan. Ég vona að þetta komi allt upp á yfirborðið og það sé ekkert að óttast.