152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:03]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir skýrsluna og góða yfirferð um stöðu mála um sölu á Íslandsbanka sem boðuð var í stjórnarsáttmála. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld munu halda áfram að draga úr eignarhaldi ríkisins í fjármálakerfinu og nýta fjármuni sem liggja í slíkum rekstri í uppbyggingu innviða.“

Við í fjárlaganefnd samþykktum fyrir okkar leyti söluna með eftirfarandi rökum; að með sölunni væri hægt að minnka lánsfjárþörf ríkissjóðs, að hægt væri að styðja við lánshæfismat og styrkja stöðu ríkisins á fjármagnsmörkuðum, og loks að minnka skuldsetningu og auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga. Það er mikilvægt að hafa í huga að okkur munar um þá fjármuni sem fást fyrir söluna þegar halli er á ríkissjóði, en hann hefur orðið verulegur eins og við vitum, m.a. til að mæta efnahagsáhrifum kórónuveirunnar. Í ljósi aðstæðna er mikilvægara en áður að byggja undir fjárfestingu og innviðaverkefni á vegum ríkisins og er þessi sala að sjálfsögðu liður í þeirri vegferð. Með sölunni skapast aukið svigrúm til þessara fjárfestinga og ekki síst til að lækka vaxtabyrðina, sem er talsverð. Sala ríkisins á eftirstandandi hlut í Íslandsbanka er þess vegna varða á þeirri leið sem við fetum í efnahagsbata þjóðarinnar og styður við, eins og áður segir, sett markmið.

Það er pólitísk ákvörðun, sannarlega, að haga sölunni á þann hátt sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fór yfir í máli sínu hérna áðan. Ef selja hefði átt hæstbjóðanda hefði öll fyrirhöfn stjórnvalda verið til lítils og gæti það verið svo að við sætum jafnvel uppi með einn aðila sem ætti ráðandi hlut í sannarlega samfélagslega mikilvægri bankastofnun. Þá ættum við líklega annað samtal en það sem við eigum í dag. Við ákváðum að haga sölunni á þann hátt að eignarhaldið yrði dreift og á það er lögð sérstök áhersla til að tryggja gagnsæi og gagnsætt ferli eins og talað hefur verið um. En það er afar mikilvægt fyrir þjóðfélagið að búa vel um hnútana í þessum málum. Við viljum að eigendur mikilvægra stofnana, sem Íslandsbanki er, sæki ekki í áhættu, þeir sjái hag sinn í því að eiga hlutinn til lengri tíma og hér ríki ákveðinn stöðugleiki.

Í söluferlinu var kallað eftir umsögnum ýmissa aðila og bárust m.a. umsagnir frá Samkeppniseftirlitinu þar sem tekið var undir þau sjónarmið sem ég hef farið yfir um dreifða eignaraðild að bankanum til þess að treysta samkeppni á markaði. Ég tel að því markmiði höfum við náð, enda bankinn með fjölmennasta eignarhaldið á íslenskum markaði.

En ég skil vel að þessi sala á Íslandsbanka veki upp blendnar tilfinningar. Ég var varaþingmaður á eftirhrunsárunum og man nákvæmlega hvernig staðan var, bæði í pólitíkinni og í efnahagsmálunum. En það er óumdeilt að regluverk í kringum banka hér á landi hefur verið bætt til muna og eftirlitið verið hert. Eðlilega, það vill ekki nokkur maður sjá samfélagið komið á vonarvöl eins og það var hér fyrir 15 árum síðan. Þegar kemur að sölu ríkisins á samfélagslega mikilvægum innviðum, hvort sem það eru bankar eða annað, er ætíð ærið tilefni til að vinna það af kostgæfni og vanda til verka. Mér finnst það sýna þróttmikið samfélag að gera þetta með þeim hætti sem var og það er að mínu mati jákvætt að almenningur vilji að svo sé og hversu rík þátttaka var í fyrra útboðinu, þannig að ég tel, virðulegi forseti, að þessi sala hafi leitt margt gott af sér.

Eins og fram hefur komið var það vilji meiri hluta Alþingis að selja bankann og að tryggja bæði að fyrirkomulagið yrði gagnsætt og gott verð fengist. Ég tel að sala á bankanum hafi verið í samræmi við þennan vilja og við höfum uppfyllt þau skilyrði sem okkur voru sett, að Bankasýslan hafi fylgt þeim fyrirmælum sem henni voru gefin og að tryggð hafi verið dreifð eignaraðild, gagnsæi og skýr og vönduð vinnubrögð. En ég tek undir að það er mikilvægt að við fáum upplýsingar, eins og hér hefur verið rætt í dag, um þá sem fengu tækifæri til að kaupa, einmitt líka minni fjárfestana. Þess vegna fagna ég þeim orðum hæstv. ráðherra að hann muni birta allar þessar upplýsingar um leið og þær berast. En við sem sitjum í fjárlaganefnd fáum líka Bankasýsluna í heimsókn eftir hádegi á morgun og fáum vonandi svör við einhverjum af þeim spurningum sem hér hafa verið bornar fram, því að það er jú í hennar verkahring að höndla með fyrirkomulagið vegna þeirrar armslengdar sem við höfum kosið að setja hér á Alþingi gagnvart fjárveitingavaldinu. Ég vona sannarlega að við verðum einhvers vísari á morgun eftir þá umræðu sem kemur til með að verða í nefndinni og ég tel mig nú nokkuð vita hvað það er sem við þurfum að heyra. Það er það sem hefur kannski verið borið hér fram í dag.