152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þannig að það sé alveg skýrt þá hef ég aldrei sagt að það hafi verið óheppilegt að bréfin hafi hækkað eftir skráningu eða á mánuðunum þar eftir, bara alls ekki. Ég tel að útboðið hafi heppnast mjög vel og það sé bara jákvætt að eignarhluturinn hafi hækkað. Við skulum muna að þetta eru bréfin sem við vorum að selja núna sem við erum að tala um að hafi hækkað. Reyndar verð ég að segja alveg eins og er að ég held að ef við hefðum staðið hér fyrir ári og reynt að tjakka upp væntingar um að við gætum kannski selt á 117 snemma á árinu 2022, þá hefðu margir talið það vera þó nokkra bjartsýni, t.d. var Arion banki mun lægra verðmetinn á þeim tíma. En mér finnst ekki ósanngjarnt að bera þróunina á verði Íslandsbanka saman við þróunina á Arion banka. Það er ákveðið viðmið, verðbreytingin. Hérna er einn punktur sem lítið hefur verið í umræðunni í dag, en hann er sá að ríkið á enn eftir að selja einhverja eignarhluti og það skiptir máli að útboð heppnist með þeim hætti að ekki verði verðhrun strax í kjölfar þess að útboðinu er lokið. Menn eru almennt sammála um að það væri illa heppnað útboð og ekki til þess fallið að laða að fjárfesta eða vekja áhuga næst þegar ríkið er að selja. Það er miklu betra og betra fyrir eftirstandandi eignarhlut ríkisins og frekari sölu að verð þróist eitthvað upp á við. Verðþróunin þessa örfáu sólarhringa sem liðnir eru frá þessu útboði er ekkert dramatísk, hún er í öllu samhengi, held ég, bara mjög eðlileg. Áfram er talsverð óvissa á alþjóðamörkuðum sem við eigum enn eftir að sjá hvernig rætist úr.